Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2023 Matvælaráðuneytið

Lífræn framleiðsla skapar ný tækifæri og eykur verðmætasköpun

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti drög að aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar ræktunar. - myndSigurjón Ragnar

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti í morgun drög að fyrstu áætlun um eflingu lífrænnar ræktunar sem unnin hefur verið á vegum stjórnvalda.

Aðgerðaáætlunin var unnin í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á öfluga íslenska matvælaframleiðslu. Meðal áhersluverkefna sem þar eru tilgreind er mótun heildstæðrar áætlunar til eflingar lífrænnar framleiðslu.

Tillögur að einstökum aðgerðum áætlunarinnar byggja á samtölum við fjölmarga aðila innanlands og styðjast við sambærilega stefnumótun á hinum Norðurlöndunum og á vettvangi Evrópusambandsins. Stjórnvöld í nágrannalöndunum, þ.á m. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafa sett sér háleit markmið um aukna hlutdeild lífrænna afurða, bæði í landbúnaðarframleiðslu landanna og á neytendamarkaði. Efling lífrænnar framleiðslu hérlendis er þannig liður í að styrkja samkeppnisstöðu Íslands gagnvart nágrannalöndunum og um leið samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu gagnvart innflutningi.

„Lífræn ræktun er m.a. til þess fallin að vernda líffræðilega fjölbreytni og er lykilþáttur í að auka sjálfbærni íslensks landbúnaðar“ sagði matvælaráðherra við kynninguna. „Aukin vakning er meðal neytenda um kosti lífrænnar framleiðslu, meðal annars um sjálfbærni og dýravelferð, og eftirspurn eftir vottaðri lífrænni framleiðslu fer vaxandi“.

Í tengslum við landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (Farm to Fork) hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sett markmið um að árið 2030 verði a.m.k. 25% af öllu landbúnaðarlandi innan sambandsins komið með lífræna vottun. Einstök ríki innan Evrópusambandsins hafa líka sett sér markmið um hlutfall lífræns vottaðs lands af heildarflatarmáli landbúnaðarlands, og í einhverjum tilvikum einnig markmið um tiltekna markaðshlutdeild, til dæmis Þýskaland, Svíþjóð, Portúgal, Frakkland og Holland.

Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki sett sér markmið um hlutfall lífræns vottað lands af landbúnaðarlandi né um markaðshlutdeild lífrænnar vöru hérlendis en þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Aðgerðaáætlunin sem hér er sett fram miðar að því að ná ákveðnu markmiði en það er að 10% af landbúnaðarlandi á Íslandi verði komið með lífræna vottun 2040.

Aðgerðaáætlunin er aðgengileg hér og á samráðsgátt stjórnvalda.

Streymi frá kynningunni má sjá hér.

  • Lífræn framleiðsla skapar ný tækifæri og eykur verðmætasköpun - mynd úr myndasafni númer 1
  • Lífræn framleiðsla skapar ný tækifæri og eykur verðmætasköpun - mynd úr myndasafni númer 2
  • Lífræn framleiðsla skapar ný tækifæri og eykur verðmætasköpun - mynd úr myndasafni númer 3
  • Lífræn framleiðsla skapar ný tækifæri og eykur verðmætasköpun - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
14. Líf í vatni
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur
3. Heilsa og vellíðan
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum