Hoppa yfir valmynd
4. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Markviss vinna í gangi vegna annmarka fangelsismála

Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu sína um stöðu fangelsismála og fékk ráðuneytið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við gerð skýrslunnar. Dómsmálaráðuneytið tekur almennt undir þær ábendingar Ríkisendurskoðunar sem að ráðuneytinu snúa. Ráðuneytinu er ljóst að rekstrarumhverfi Fangelsismálastofnunar hefur verið krefjandi um árabil. Eins og fram kemur í gögnum frá ráðuneytinu til Ríkisendurskoðunar og jafnframt í drögum að skýrslu Ríkisendurskoðunar þá hefur ráðuneytið ítrekað upplýst ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis um stöðuna. Það varð til þess að fjárheimildir Fangelsismálastofnunar voru varanlega auknar um 250 m.kr. frá og með árinu 2023 og að Fangelsismálastofnun fékk 150 m.kr. viðbótarframlag með fjáraukalögum 2022. Einnig var almenn aðhaldskrafa á Fangelsismálastofnun varanlega felld niður. Þá veitti dómsmálaráðuneytið stofnuninni 50 m.kr. fjárheimild á árinu 2023 til kaupa á ýmsum öryggisbúnaði fyrir fangelsin og starfsfólk þeirra. Auk framangreinds ákvað ráðuneytið að veita samtals 80 m.kr. á árunum 2023 og 2024 til þess að efla nám fangavarða.

Unnið er að heildarstefnu í fullnustumálum

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að helstu ástæður þess að íslenskt fullnustukerfi sé ekki rekið með þeirri skilvirkni eða árangri sem lög gera ráð fyrir séu þær að ekki hafi verið mótuð heildarstefna á sviði fullnustumála. Að mati ráðuneytisins er ákveðin einföldun að halda því fram að helstu ástæður þess að fullnustukerfið sé ekki rekið með nægilega góðum árangri sé skortur á heildarstefnu. Ástæða þessarar stöðu er að mati ráðuneytisins ekki síst erfitt rekstrarumhverfi sem Fangelsismálastofnun og málaflokknum í heild sinni hefur verið búið á síðustu árum. Þá má benda á að heildarstefna þegar kemur að málaflokknum birtist meðal annars í lögum um fullnustu refsinga. Þrátt fyrir að ekki sé langt síðan að farið var í endurskoðun á lögum um fullnustu refsinga er ráðuneytið að hefja vinnu við heildstæða stefnumótun þegar kemur að málaflokknum.

Boðunarlistar styttir

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur ítrekað fram að mikilvægt sé að stytta boðunarlistann. Að mati ráðuneytisins skiptir miklu máli, ekki síst með betrunar eða endurhæfingarsjónarmið í huga, að dómþolar hefji afplánun sem fyrst eftir uppkvaðningu dóms og farsælast væri að ekki þyrfti að halda úti sérstökum boðunarlistum. Dómsmálaráðuneytið hefur þegar gripið til aðgerða til styttingar boðunarlistans, á grundvelli aðgerða sem lagðar voru til í skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins. Auknum fjármunum hefur verið veitt til málaflokksins á árinu og var það ekki síst til þess að geta fullnýtt pláss í þeim fangelsum sem nú þegar eru til staðar.

Refsingar þyngjast

Að mati ráðuneytisins er þó ljóst að frekari aðgerðir þarf til og í þeirri heildarendurskoðun sem fram undan er verður rýnt í þessa stöðu. Meðal þess sem verður skoðað er hvort hægt sé að auka afplánun utan fangelsa enn frekar en gert er í dag. Einnig þarf að greina stöðuna í húsnæðismálum nánar með langtímasjónarmið í huga, þ.e.a.s. meðal annars með hliðsjón af því að refsingar hafa verið að þyngjast síðustu ár. Það hefur meðal annars haft þau áhrif að fjölgað hefur á boðunarlistanum þar sem fangarýmum hefur ekki fjölgað að sama skapi. Í fyrirhugaðri heildarendurskoðun verða unnar áætlanir um það hversu mörg fangarými þurfi og hvaða kostnað það mun hafa í för með sér.

Nýtt fangelsi á Litla Hrauni

Brýnt er unnið verði hratt að byggingu nýs fangelsis í stað fangelsisins á Litla Hrauni og það verkefni er á fullri ferð. Dómsmálaráðuneytið hefur nú falið Framkvæmdarsýslu ríkisins að vinna að uppbyggingunni á Litla Hrauni og hefur Framkvæmdarsýslunni jafnframt verið falið að semja um nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir á þeim húsakosti sem fyrir er á Litla Hrauni og nýta þarf meðan á framkvæmdum stendur. Hefur dómsmálaráðherra jafnframt skipað stýrihóp til þess að fylgjast með gangi framkvæmdanna og taka ákvarðanir í samræmi við tilgang verkefnisins og sitja fulltrúar dómsmálaráðuneytisins í þeim hópi. Tekur dómsmálaráðuneytið jafnframt undir það mat Ríkisendurskoðunar að brýnt sé að starfsemi fangelsisins raskist sem minnst á framkvæmdatíma og unnið verði að skilvirku meðferðar- og endurhæfingarstarfi fanga.

Húseignir verði framvegis undir handleiðslu Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna

Dómsmálaráðuneytið tekur heilshugar undir ábendingu Ríkisendurskoðunar og telur að húseignir Fangelsismálastofnunar eigi að vera undir handleiðslu Framkvæmdasýslunnar – ríkieigna, eins og annað húsnæði ríkisins. Á þetta hefur ráðuneytið bent nokkuð lengi þar sem ekki er hægt að ætlast til þess að stofnunin geti staðið undir eðlilegu viðhaldi húseignanna án fjárveitinga.

Önnur yfirvöld hafi aðkomu að mótun heildstæðrar stefnu í fullnustumálum

Dómsmálaráðuneytið er sammála Ríkisendurskoðun um mikilvægi þess að menntamála-, heilbrigðismála- og félagsmályfirvöld hafi aðkomu að mótun heildstæðrar stefnu á sviði fullnustumála. Mun ráðuneytið vinna að endurskoðun í málaflokknum í samvinnu við önnur yfirvöld sem að málaflokknum koma auk fleiri aðila sem tengjast málaflokknum.

Vinna þarf að langtímalausn á vistun kvenfanga

Dómsmálaráðuneytið tekur undir að brýnt sé að vinna að langtímalausn á vistun kvenfanga. Fullnusta kvenfanga er meðal áherslumála dómsmálaráðherra og meðal þess sem verður lögð verður sérstök áhersla á þegar kemur að heildarendurskoðun í fullnustumálum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum