Hoppa yfir valmynd
4. desember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Skráningarskírteini fyrir vörumerki aðgengileg á Ísland.is

Skráningarskírteini fyrir vörumerki hefur verið sent í stafrænt pósthólf á Ísland.is í fyrsta skipti. Hugverkastofan sendir nú staðfestingar á móttöku umsókna, skráningarskírteini, endurnýjunarvottorð og staðfestar útskriftir vegna vörumerkja í gegnum Ísland.is og brátt munu viðskiptavinir svo fá flest formleg erindi frá Hugverkastofunni í stafræna pósthólfið, m.a. varðandi hönnunarvernd og einkaleyfi. Þá er áætlað að um áramót verði öll bréf Hugverkastofunnar til viðskiptavina varðandi hugverkaréttindi aðgengileg á Ísland.is.

Stafræn vegferð Hugverkastofunnar hefur gengið hratt og vel á síðustu mánuðum, en stafræn gátt fyrir einkaleyfisumsóknir var opnuð nú í haust. Þar er hægt að sækja um einkaleyfi á Íslandi með rafrænum skilríkjum og nær öll þjónusta Hugverkastofunnar þar með orðin stafræn. Hægt er að sækja um öll helstu hugverkaréttindi í iðnaði á vef stofnunarinnar, hugverk.is.

Stafrænt pósthólf Ísland.is er lokað svæði sem er einungis aðgengilegt með rafrænum skilríkjum. Þar eru birtar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til bæði einstaklinga og fyrirtækja.

Nánari upplýsingar má nálgast á veg Hugverkastofunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum