Hoppa yfir valmynd
7. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland bakhjarl mannréttindasamtaka í Úganda

Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Hassan Shire, framkvæmdastjóri DefendDefenders undirrituðu samninginn. Auk þeirra eru á myndinni Sveinn H. Guðmarsson, verkefnastjóri í sendiráði Íslands í Kampala, og Memory Bandera Rwampwanyi hjá DefendDefenders. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja stuðning við afrísku mannréttindasamtökin DefendDefenders. Samtökin, sem hafa höfuðstöðvar í Úganda, beita sér fyrir stuðningi við fólk sem berst fyrir mannréttindum, þar á meðal réttindum hinsegin fólks. 75 ár eru um þessar mundir frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. 

Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Hassan Shire, framkvæmdastjóri DefendDefenders undirrituðu samning um stuðning í höfuðstöðvum samtakanna í dag. Um er að ræða kjarnaframlag sem nemur 200 þúsund bandaríkjadölum, jafnvirði 28 milljóna króna. Samningurinn er liður í viðleitni Íslands við að styðja við mannréttindi í Afríku, ekki síst hinsegin fólks. Staða þess er víða mjög bágborin og fer versnandi, til dæmis í Úganda þar sem stjórnvöld samþykktu fyrr á árinu stórhert viðurlög við samkynhneigð. 

DefendDefenders eru með höfuðstöðvar í Úganda en hafa starfsemi víðar í Austur-Afríku og á Afríkuhorninu svonefnda. Samtökin styðja við og vernda fólk sem berst fyrir mannréttindum, þar á meðal réttindum hinsegin fólks, og veita því skjól fyrir aðkasti og ofsóknum. Þetta gera þau meðal annars með því að efla samstarf mannréttindasamtaka á svæðinu, auka þekkingu á málaflokknum og með því að veita baráttufólk fyrir mannréttindum nauðsynlega þjálfun. Samtökin njóta mikillar virðingar á sínu sviði og njóta þau stuðnings ýmissa líkt þenkjandi ríkja Íslands, Norðurlanda þar á meðal.

DefendDefenders hafa einnig ráðgjafahlutverk á vettvangi efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) og áheyrnaraðild að Afríska mannréttindaráðinu. Samtökin eru einu afrísku mannréttindasamtökin sem taka þátt í starfi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. 

Stuðningur við DefendDefenders er í samræmi við aukna áherslu Íslands á mannréttindi og stuðning við félagasamtök. Ísland heldur áfram að styðja við verkefni í Úganda á sviði grunnþjónustu, með það að markmiði að veita íbúum í fátækum héruðum landsins betri aðgang að vatni, hreinlæti og menntun, sem eru grunnmannréttindi. 

10. desember nk. eru 75 ár liðin frá samþykkt Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þá var yfirlýsing SÞ um baráttufólk fyrir mannréttindum (e. UN Declaration on Human Rights Defenders) samþykkt fyrir 25 árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum