Hoppa yfir valmynd
7. desember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ný skýrsla um nærandi ferðaþjónustu á Norðurlöndum

Ný skýrsla um nærandi ferðaþjónustu á Norðurlöndum  - myndEydís Eyjólfsdóttir
Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur frá árinu 2022, leitt verkefnið „Nærandi ferðaþjónusta á Norðurlöndum“ sem Íslenski ferðaklasinn vinnur fyrir hönd ráðuneytisins. Út er komin ný skýrsla um verkefnið og er hún nú aðgengileg hér á vef Stjórnarráðsins.

Nærandi ferðaþjónusta á Norðurlöndum er þriggja ára þróunarverkefni, fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og hefur það að meginmarkmiði að styðja lítil og örsmá fyrirtæki í ferðaþjónustu við innleiðingu nærandi ferðaþjónustu í starfsemi sinni.

Nærandi ferðaþjónusta (e. regenerative tourism) er nálgun á uppbyggingu og þróun innan ferðaþjónustu sem hefur verið að ryðja sér æ meira til rúms undanfarin ár. Forsendur nærandi ferðaþjónustu eru velsæld og jafnvægi. Fólk, hvort sem um ræðir íbúa, starfsmenn í ferðaþjónustu eða gestir eru allt hluti af sama vistkerfinu og hefur því óhjákvæmilega áhrif á umhverfið eða verður fyrir áhrifum af því.

Markmið nærandi ferðaþjónustu er að ferðaþjónustufyrirtæki og gestir þeirra hafi jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og náttúru en einnig að rekstur fyrirtækjanna og framboð afþreyingar og þjónustu geri gestum áfangastaðarins kleift og ljúft að taka þátt í að styrkja og leggja til áfangastaðarins til framtíðar. Markmiðið er að skilja við áfangastaðinn í betra ásigkomulagi en áður en til heimsóknarinnar kom. Það er hægt með markvissum leiðbeiningum og verkefnum innan áfangastaða sem aðstoða gesti við að láta jákvætt að sér leiða.

Fyrsta ár NorReg verkefnisins leiddi í ljós þau miklu tækifæri sem felast í nærandi ferðaþjónustu fyrir samfélög innan Norðurlandanna og náið samband á milli verkefnisins og Norrænu framtíðarsýnarinnar fyrir árið 2030. Áherslunni á lítil og örsmá fyrirtæki var fagnað af þátttakendum og leiddi í ljós nauðsyn þess að taka upp heildstæða nálgun sem tryggir aðkomu þeirra að ákvarðanatöku innan ferðaþjónustunnar. Verkefnið leiddi í ljós að mikil þörf er á að móta aðferðir til að meta árangurinn af nærandi ferðaþjónustu og mikilvægi þess að virkja þátttakendur í að móta eigin starfsemi.

Á öðru ári verkefnisins var lögð áhersla á að efla stuðningsnet og eignarhald í heimabyggð og halda áfram með þróun stuðningsverkfæra og matsaðferða, en einnig er á þessu ári lögð áhersla á að tengja viðhorf nærandi ferðaþjónustu inn í stefnumótun og aðgerðaáætlanir á landsvísu og í héraði. Fimm svæðissamtök og áfangastaðastofur á Norðurlöndum unnu að verkefninu á árinu 2022; á Snæfellsnesi, Grænlandi, í Færeyjum, Lofoten í Noregi og Skáni í Svíþjóð. Í ár, tóku Destination Trekanten í Danmörku við af Grænlandi í hópi þátttakenda.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið, ásamt Íslenska ferðaklasanum, vinnur nú að umsókn um verkefnastyrk til Norrænu ráðherranefndarinnar, um þriðja verkhluta verkefnisins. Markmið verkefnisins á lokaárinu er að styrkja og útvíkka netverk verkefnisins, þróa og innleiða verkfæri nærandi ferðaþjónustu og bjóða fyrirtækjum og þátttakendum upp á vinnustofur um hvernig nýta megi og innleiða hugmyndafræði nærandi ferðaþjónustu í starfsemi sinni. Vinnustofurnar og verkfærin verða opin og aðgengileg öllum ferðaþjónustufyrirtækjum sem áhuga hafa á verkefninu. Vonir standa til að netverk um nærandi ferðaþjónustu verði virkt og starfandi um öll Norðurlönd að verkefninu loknu.

Sjá einnig:

Skýrslan (PDF)

Vefsíða verkefnisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum