Hoppa yfir valmynd
7. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumanns

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga verða færð til Sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Það sýslumannsembætti þótti vænlegur valkostur fyrir móttöku verkefnisins vegna samlegðar við önnur sérverkefni þess, svo sem innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi sem er á ábyrgð embættisins. Dómsmálaráðuneytið og innviðaráðuneytið hafa unnið að þessum breytingum í sameiningu þar sem það fellur vel að byggðaáætlun og sameiginlegum markmiðum ráðuneytanna um að efla landsbyggðina.

Dómsmálaráðuneytið hefur undanfarin misseri átt í samstarfi við önnur ráðuneyti um að efla þjónustu sýslumannsembættanna á landsbyggðinni með því að færa þeim aukin verkefni. Flutningur verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumanns er eitt af þeim verkefnum sem dómsmálaráðuneytið setti í forgang og fylgir þannig markmiðum aðgerðar A.8 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Þykir verkefnaflutningurinn styðja einkar vel við markmið aðgerðarinnar um að opinber þjónusta í héraði verði efld, atvinnutækifærum verði fjölgað og ríkisreksturinn bættur.

Með frumvarpi til laga nr. 45/2023 um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971 (verkefnaflutningur til sýslumanns), var mælt fyrir um þá breytingu að sýslumanni yrði falin ábyrgð á innheimtu meðlaga og öðrum framfærsluframlögum.

Væntingar standa til að verkefnaflutningurinn skili bættri þjónustu við meðlagsgreiðendur þar sem aðgengi að sýslumanni þykir betra en að Innheimtustofnun vegna fjölda starfsstöðva um land allt. Þá munu meðlagsgreiðendur jafnframt eiga þess kost að geta kært vissar ákvarðanir embættisins til dómsmálaráðuneytisins, sem er breyting frá því sem verið hefur, þar sem almenn kæruleið til æðra stjórnvalds er ekki til staðar. Dómsmálaráðuneytið mun jafnframt hafa skýrt eftirlitshlutverk með málaflokknum og framkvæmd sýslumanns á grundvelli laga nr. 54/1971 með síðari breytingum.

Verkefnaflutningurinn er til þess fallinn að fjölga sérhæfðum störfum á landsbyggðinni og styrkir því starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni með fjölgun stöðugilda. Þá fylgja ýmsir hagræðingarmöguleikar breytingunum vegna samlegðar við annan rekstur innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, svo sem yfirstjórn og upplýsingatækni. Ljóst þykir að ýmis tækifæri séu fyrir hendi, sem felast í endurskoðun verkferla með tilliti til aukinnar nýtingar tækninnar við framkvæmd innheimtu, þar á meðal meðlaga og annarra framfærsluframlaga.

Auk ráðuneytanna tveggja hafa ýmsir aðrir komið að undirbúningi verkefnaflutningsins og ber þar helst að nefna Sýslumanninn á Norðurlandi vestra, starfsfólk Innheimtustofnunar sveitarfélaganna, Stafrænt Ísland, Fjársýslu ríkisins og ýmis hugbúnaðarfyrirtæki. Frá upphafi þótti ljóst að flutningurinn yrði nokkuð flókinn og umfangsmikill og því var farin sú leið að ráða sérstakan verkefnastjóra til að leiða vinnuna, með stuðningi fjármagns úr byggðaáætlun. Hinn 1. janúar nk. þegar lagabreytingarnar öðlast gildi tekur við tímabil innleiðingar og nánari endurskoðunar á framkvæmd innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga og laga um innheimtu meðlaga o.fl. Ráðuneytið mun í samstarfi við sýslumanninn á Norðurlandi vestra og öflugt starfsfólk innheimtunnar koma að þeirri vinnu og þannig fylgja verkefnaflutningnum úr hlaði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum