Hoppa yfir valmynd
8. desember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Beinir styrkir í stað skattaívilnana vegna orkuskipta

Beinir styrkir taka við af skattaívilnunum sem hvatar til orkuskipta í landssamgöngum frá og með næstu áramótum. Á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hefur verið unnið að gerð styrkjakerfis sem hraða á orkuskiptum í bílaflotanum í tengslum við flutnings hvata til kaupa á hreinorkubílum til Orkusjóðs. Áhersla er lögð á að kerfið verði einfalt, fyrirsjáanlegt, gagnsætt og tryggi réttlát umskipti.

Loftslagsmál eru forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Í Sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf er lögð áhersla á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda, orkuskiptum og grænni fjárfestingu þannig að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins.

Mikilvægur þáttur í því að ná settum markmiðum varðandi losun gróðurhúsaloftegunda er að stuðla að orkuskiptum með markvissum hætti. Á liðnum árum hafa hvatar til orkuskipta í landsamgöngum verið með þeim hætti að veittir hafa verið afslættir af virðisaukaskatti, en það fyrirkomulag hefur skort skilvirkni og gagnsæi. Því hefur verið ákveðið að frá 1. janúar 2024 verði teknir upp beinir styrkir í stað skattaívilnana og að styrkjunum verði fyrst og fremst beint þangað sem þeir stuðla að sem mestum samdrætti í losun.

Í fjármálaáætlun 2024-2028 er gert ráð fyrir að leggja Orkusjóði sérstaklega til 30.000 m.kr. til að stuðla að orkuskiptum til viðbótar við grunnfjárveitingar sjóðsins. Árlegt framlag til þessa verkefnis skv. fjármálaáætlun verður 7.500 m.kr. 2024 og 2025 en lækkar síðan í 5.000 m.kr. 2026 til 2028. Þetta er nokkru minni stuðningur til orkuskipta en verið hefur.

Lækkunin frá yfirstandandi ári skýrist af því að á móti 7.500 m.kr. framlagi í Orkusjóð er horfið frá skattaívilnunum og einnig falla brott tímabundin framlög í sjóðinn.

Nýtt styrkjakerfi

Í ljósi þess að styrkjum til orkuskipta er ætlað að stuðla að sem mestum samdrætti í losun, verður þeim varið til að stuðla að orkuskiptum í bílaflotanum með styrkjum til kaupa á hreinorkubílum. Ekki er gert ráð fyrir styrkjum til kaupa á öðrum vistvænum farartækjum.

Með breytingunum sem taka gildi um árámót er áhersla lögð á að styrkjakerfið sé einfalt, fyrirsjáanlegt, gagnsætt og að það tryggi réttlát umskipti. Samkvæmt nýja kerfinu er gert ráð fyrir að styrkur vegna hreinorku fólksbíla sem kosta undir 10 m.kr. verði 900 þ.kr. kr. árið 2024 og er styrkhlutfall vegna ódýrari bíla þar með hærra en dýrari bíla. Enginn styrkur verður greiddur vegna fólksbíla sem kosta meira en 10 m.kr. Styrkir vegna notaðra innfluttra bíla verða lægri og ná einungis til nýlegra bíla. Í dag er veittur VSK afsláttur vegna allra hreinorkubíla óháð verði, en með breytingunum fá allir hreinorkufólksbílar sem á annað borð fá styrk, bæði heimilisbílar og bílaleigubílar, sömu upphæð. Styrkir til atvinnubíla og hópferðabíla ráðast af stærð bíls.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Fyrirkomulaginu er ætlað að stuðla að sem mestum samdrætti í losun svo grænum orkuskiptum verði náð og Ísland geti náð markmiðum sínum í loftslagsmálum. Þess vegna leggjum við áherslu á orkuskipti bílaflotans. Breytingarnar sem gerðar verða á hvatakerfinu gera fyrirkomulagið gagnsætt og auðskiljanlegt og falla vel að hugmyndafræðinni um réttlát umskipti, þar sem styrkur vegna ódýrustu rafbílana er hlutfallslega hærri.“

Orkusjóður mun annast afgreiðslu styrkjanna. Auðvelt verður að sækja um styrki til fólksbílakaupa og verður það gert á mínum síðum á island.is. Gert er ráð fyrir að styrkumsóknir fái skjóta afgreiðslu þegar nýr hreinorkubíll hefur verið skráður á nýjan eiganda. Styrkir vegna atvinnubíla verði auglýstir tvisvar á ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum