Hoppa yfir valmynd
13. desember 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með forseta Úkraínu

Frá vinstri: Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, í Osló.

Gestgjafi fundarins var Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, en aðrir þátttakendur voru Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Á fundinum var rætt um stöðu og horfur í hernaðarátökunum og um friðaráætlun Úkraínu. Í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins heita norrænu leiðtogarnir áframhaldandi órofa stuðningi við Úkraínu. Þar er einnig lögð áhersla á að Rússar verði dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi sína í Úkraínu.

Norðurlöndin lýsa yfir fullum stuðningi við friðaráætlun Úkraínu sem byggir á réttlátum og varanlegum friði og munu áfram vinna á alþjóðavettvangi að framgangi áætlunarinnar. Þá segir í yfirlýsingunni að framtíð Úkraínu liggi í hópi lýðræðisríkja Evrópu og að Norðurlöndin muni áfram styðja Úkraínu á leið sinni að aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Úkraínuforseta. Þar ræddu þau m.a. um stuðning Íslands við Úkraínu og frekari tækifæri til  og samstafs.

Stuðningur Íslands hefur fyrst og fremst verið veittur í gegnum alþjóðastofnanir á borð við Rauða krossinn, Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann og Atlantshafsbandalagið og tengst mannúðarmálum, efnahagsaðstoð og varnaraðstoð. Ísland styður einnig við sérstök verkefni á borð við „Grain from Ukraine“ sem snýst um að koma korni frá Úkraínu til Afríkuríkja og alþjóðabandalag um endurheimt úkraínskra barna. Þá ræddu Katrín og Zelensky um tjónaskrána sem komið var á fót á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í maí sl. en góður gangur hefur verið í því verkefni. Róbert Spanó, fyrrum forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, var kjörinn formaður stjórnar verkefnisins í vikunni.

Loks átti forsætisráðherra tvíhliða fund með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. Þar ræddu ráðherrarnir um málefni Úkraínu, stöðu mála á Gasa og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28.

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Volodomyr Zelensky, forseti Úkraínu. - mynd
  • Frá blaðamannafundi norrænu leiðtoganna og forseta Úkraínu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum