Hoppa yfir valmynd
19. desember 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana orðið að lögum

Alþingi - myndHeilbrigðisráðuneytið

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Willums Þórs Þórssonar um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika. Markmiðið er að auka öryggi sjúklinga, efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins og fækka alvarlegum atvikum. Einnig að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna með því að skýra og auka réttaröryggi þeirra.

„Þessar breytingar marka tímamót. Það hefur lengi verið kallað eftir þeim og að baki liggja sterk rök, skýr markmið og vönduð vinna. Þetta er réttlætismál sem snýr jafnt að heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum og er án efa mikilvægt framfaraskref“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Með lagasetningunni verður unnt að koma fram refsiábyrgð á hendur heilbrigðisstofnunum fremur en einstaka heilbrigðisstarfsmönnum ef margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks í heilbrigðisþjónustu. Hingað til hafa rannsóknir alvarlegra atvika jafnan beinst að ábyrgð einstakra starfsmanna, þrátt fyrir að orsökina megi oftast rekja til kerfislægra þátta. Að sama skapi hefur refsiábyrgðin einkum snúist um sök einstaklinga.

Ákvæði um rannsókn alvarlegra atvika hefur einnig verið gert ítarlegra. Meðal annars hefur aðkoma sjúklinga og/eða nánustu aðstandenda að rannsókn mála verið betur tryggð. Jafnframt er kveðið á um hámarks málsmeðferðartíma í slíkum málum verði sex mánuðir. Einnig hafa verið gerðar breytingar á ferli kvartana til embættis landlæknis. Þá er kveðið á um að heilbrigðisstofnunum sé skylt að skipuleggja starfsemi sína þannig að heilbrigðisstarfsmenn geti staðið við lögbundnar skyldur sínar og enn fremur eru skyldur til innra eftirlits heilbrigðisstofnanna áréttaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum