Hoppa yfir valmynd
19. desember 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Lúðvík Þorgeirsson skipaður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Lúðvík Þorgeirsson - mynd

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Lúðvík Þorgeirsson í embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til næstu fimm ára, frá 1. mars 2024. Lögskipuð hæfnisnefnd sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana mat Lúðvík hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.

Lúðvík er viðskiptafræðingur með M.Sc gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og leggur stund á nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands með áherslu á mannauðsstjórnun. Síðastliðin fjögur ár hefur Lúðvík gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Áður starfaði hann m.a. hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hann stýrði greiningasviði á einu af þremur kjarnasviðum embættisins. Hann var um tíma framkvæmdastjóri vátrygginga og staðgengill forstjóra hjá European Risk Insurance Company í Englandi. Um árabil var hann forstöðumaður vátrygginga og áhættumats hjá Actavis Group hf. og þar áður forstöðumaður fimmtán útbúa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um allt land.

Í mati hæfnisnefndar er lögð áhersla á fjölþætta og langvarandi reynslu Lúðvíks af rekstri og áætlanagerð. Enn fremur hafi hann langvarandi reynslu á sviði stjórnunar, stefnumótunar og mannauðsstjórnunar og hafi auk þess góða innsýn í stjórnsýslu. Það er mat nefndarinnar að Lúðvík sé góður leiðtogi og vel hæfur til að gegna embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum