Hoppa yfir valmynd
21. desember 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breytingar á staðgreiðslu um áramót

Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga og útsvarsprósentum sveitarfélaga um áramótin í kjölfar fjórða samkomulags ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Í samkomulaginu felst varanleg tilfærsla fjármuna sem nema 6 ma.kr. árlega frá ríki til sveitarfélaga í því skyni að koma til móts við aukinn kostnað sveitarfélaga af þjónustu við fatlað fólk. Aðgerðin felur í sér að hámarksútsvar verður hækkað og tekjuskattur einstaklinga lækkaður jafn mikið samhliða. Breytingin er því hlutlaus fyrir skattgreiðendur að því gefnu að sveitarfélög nýti sér hina auknu heimild til að hækka útsvar.

Lög nr. 90/2003 um tekjuskatt einstaklinga breytast á þann veg að öll þrep tekjuskatts lækka um 0,23 prósentustig og lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga á þann veg að heimild til álagningar útsvars hækkar um 0,23 prósentustig og verður því 14,97% eftir breytinguna.

Til viðbótar fyrrgreindum breytingum skal samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt í upphafi hvers árs hækka persónuafslátt og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættri hækkun vegna aukinnar framleiðni. Miðað er við 1% árlega aukningu framleiðni og er það mat tekið til endurskoðunar á 5 ára fresti, næst fyrir áramótin 2027-2028. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 7,7% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun persónuafsláttar og þrepamarka verður því 8,8%.

Með fyrirvara um að endanlegt meðalútsvar liggur ekki fyrir verða skattprósentur, persónuafsláttur og þrepamörk eftirfarandi árið 2023.

Skattprósentur

2024

Prósenta í 1. þrepi:

31,48% (þar af 14,93% útsvar)

Prósenta í 2. þrepi:

37,98% (þar af 14,93% útsvar)

Prósenta í 3. þrepi:

46,28% (þar af 14,93% útsvar)

 

Persónuafsláttur og þrepamörk 2024

Á ári

Á mánuði

Persónuafsláttur:

779.112

64.926

Þrepamörk milli 1. og 2. þreps:

5.353.634

446.136

Þrepamörk milli 2. og 3. þreps:

15.030.014

1.252.501

 

Með framangreindum fyrirvara verður meðalútsvar í staðgreiðslu á árinu 2024 14,93% og hækkar um 0,26 prósentustig frá fyrra ári, eða 0,03% umfram hækkun hámarksútsvars. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið en þar sem hækkun þess er umfram lækkun tekjuskatts hækka öll þrep í staðgreiðslu einstaklinga um 0,03% , enda samanlögð hlutföll tekjuskatts og meðalútsvars. Sveitarfélög leggja á útsvar og er hækkun meðalútsvars umfram þá hækkun sem samkomulag ríkis og sveitarfélaga kveður á um því tilkomið vegna þess að einstaka sveitarfélög hækka útsvar sitt umfram þau 0,23% sem þar er kveðið á um og hafa þá verið undir hámarksútsvari fyrir.

Sveitarfélög eiga skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga að ákveða fyrir 1. desember útsvarsprósentu næsta árs og tilkynna fjármála- og efnahagsráðuneytinu um þá ákvörðun eigi síðar en 15. desember. Þar sem ofangreindar breytingar á hámarksútsvari, fjármögnun Jöfnunarsjóðs og tekjuskatti einstaklinga voru lögfestar 15. desember sl. var samhliða lögfest bráðabirgðaákvæði þar sem sveitarfélögum var gefinn frestur til 30. desember nk. til þess að ákvarða og tilkynna útsvarsprósentu næsta árs. Uns endanleg ákvörðun sveitarstjórna liggur fyrir er því miðað við að öll sveitarfélög sem ekki hafa sent tilkynningu til ráðuneytisins hækki útsvarsprósentu sína frá því sem áður hafði verið ákveðið til samræmis við hækkun hámarksútsvars og aukna hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarsstofni, eða um 0,23 prósentustig. Meðalútsvar er því tilgreint nú með þeim fyrirvara að það geti tekið breytingum þegar endanlegar útsvarsprósentur sveitarfélaga liggja fyrir nú um áramótin.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða 214.839 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldagreiðslu launþega í lífeyrissjóð. Þá munu skattleysismörk tekjuskatts, sem eru þau mörk þegar launþegi byrjar að greiða tekjuskatt til ríkisins, verða 408.648 kr. að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldagreiðslu launþega í lífeyrissjóð.

Eftir breytingu mun einstaklingur sem hefur 700.000 kr. í launatekjur í desember greiða 7.409 kr. minna í staðgreiðslu af sömu launatekjum sínum í janúar en hann gerði í desember.

Tryggingagjald

Engar breytingar verða á tryggingagjaldi frá fyrra ári. Skiptingu þess má sjá í meðfylgjandi töflu.

2024

Almennt tryggingagjald

4,90%

Atvinnutryggingagjald

1,35%

Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota

0,05%

Markaðsgjald

0,05%

Tryggingagjald, samtals

6,35%

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum