Hoppa yfir valmynd
21. desember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkur til Taktu skrefið vegna þjónustu við fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Taktu skrefið 8 milljóna króna styrk. Um er að ræða sérhæfða þjónustu við fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi. Hjá Taktu skrefið starfar hópur sálfræðinga með sérþekkingu á þessu sviði.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið veitti samtökunum fjárframlag á síðasta ári til þess að koma þjónustunni á laggirnar. Samkvæmt samningnum sem nú hefur verið undirritaður mun Taktu skrefið áfram bjóða upp á sérhæfða sálfræðimeðferð fyrir einstaklinga sem sýnt hafa skaðlega kynferðislega hegðun eða hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni, á netinu eða gagnvart öðrum. Þjónustunni er ætlað að draga úr líkum á óviðeigandi og skaðlegri kynhegðun einstaklinga með því að veita þeim viðeigandi aðstoð fagaðila á þessu sviði.

„Ég hef lagt mikla áherslu á að stjórnvöld geri allt sem þau geta til að draga úr ofbeldi. Á þessu ári hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið veitt ríflega 270 milljónum króna til félagasamtaka og aðila sem veita þjónustu til þolenda og gerenda ofbeldis. Þetta eru Samtök um kvennaathvarf, Stígamót, Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð, Sigurhæðir, Aflið, Heimilisfriður og Taktu skrefið,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Við veittum að auki 60 milljónum króna í styrki til ákveðinna verkefna til stuðnings við þolendur og gerendur ofbeldis þar sem hæstu styrkjunum var varið í að tryggja rekstur kvennaathvarfs á Akureyri og koma á fót þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum. Þá vinnur starfshópur sem ég skipaði nú að því að skoða og meta hvaða laga- og reglugerðabreytinga er þörf þegar kemur að þjónustu vegna ofbeldis með tilliti til ákvæða í samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi.“ 

Af vefnum Taktuskrefid.is.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum