Hoppa yfir valmynd
22. desember 2023 Heilbrigðisráðuneytið

30 milljónir til verkefna gegn fíknisjúkdómum

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 30 milljónum króna í styrki til frjálsra félagasamtaka vegna verkefna sem miða að því að vinna gegn fíknisjúkdómum og þá einkum ópíóíðafíkn. Sex verkefni hlutu styrk. Hæsti styrkurinn, átta milljónir króna, rennur til verkefnis Matthildar, samtaka um skaðaminnkun. Í því felst að koma á fót færanlegu úrræði til að veita fólki sem reykir ópíóíða eða örvandi vímuefni nærþjónustu á forsendum þess með skaðaminnkun að leiðarljósi.

Þetta er í annað sinn sem ráðherra auglýsir styrki til verkefna á vegum frjálsra félagasamtaka til að vinna gegn fíknisjúkdómum. Í auglýsingunni var áhersla lögð á að verkefni sem kæmu til greina skyldu byggja á faglegum grunni, hafa raunhæft markmið tengt því að vinna gegn fíknisjúkdómum og hafa skýrt upphaf og endi. Jafnframt að við lok verkefnis verði árangur af því metinn. Alls bárust umsóknir um sjö verkefni. Sex þeirra hlutu styrk en ein umsókn uppfyllti ekki skilyrði.

Foreldrahús hlaut 4,0 m.kr. til að veita fjölskyldum ráðgjöf sem snemmtækt inngrip vegna vímuefnanotkunar unglinga sem hluta af fyrirhuguðu forvarnarverkefni félagasamtakanna.

Matthildur, samtök um skaðaminnkun hlutu 3,6 m.kr. til að auka aðgengi að upplýsingum á vefnum um öruggari notkun löglegra og ólöglegra vímuefna og forvarnir gegn ofskömmtun.

Matthildur samtök um skaðaminnkun hlutu 8,0 m.kr. í færanlegt skaðaminnkunarverkefni fyrir fólk sem reykir ópíóíða og örvandi vímuefni.

Rótin hlaut 3,8 m.kr. til verkefnis sem miðar að því að þróa áfram og koma á fót lágþröskulda-heilbrigðisþjónustu fyrir konur sem glíma við heimilisleysi og alvarlegan vímuefnavanda.

Samhjálp hlaut 5,4 m.kr. til áframhaldandi innleiðingar áfallamiðaðrar nálgunar í meðferðarstarfi undir handleiðslu erlends sérfræðings.

SÁÁ hlutu 5,2 m.kr. til að útbúa aðgengilegt fræðsluefni með upplýsingum um aðgengi að meðferð og bjargráð sem nýtast til að draga úr neikvæðum afleiðingum ópíóíða.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum