Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2024 Matvælaráðuneytið

Áfangaskýrslu skilað um verndun hafsvæða

Stýrihópur um verndun hafsvæða innan íslenskrar lögsögu sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði í mars sl. hefur skilað áfangaskýrslu til ráðherra.

Á meðal verkefna hópsins er að rýna stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins með tilliti til svæðisverndar, þar á meðal leiðbeininga alþjóðastofnana og alþjóðasamninga. Einnig er hópnum ætlað að draga saman fyrirliggjandi þekkingu um hafsvæðið við Ísland og gera tillögur að svæðum sem þurfa verndunar við og afmörkun þeirra.
Eftirtalin atriði eru á meðal tillagna í skýrslunni:

  • Hugtakið „friðlýst svæði í hafi“ verði notað almennt um það sem á ensku er nefnt marine protected area (MPA) og að hugtakið „önnur virk svæðisvernd“ verði notað almennt um það sem á ensku er nefnt other effective conservation measures (OECM). Hugtakið „verndarsvæði í hafi“ verði notað sem safnheiti yfir svæði sem njóta einhvers konar verndar.

  • Matvælaráðherra feli Hafrannsóknastofnun að leiða vinnu við samhæfingu, aðgengi og uppbyggingu gagnagrunna varðandi náttúrufar hafsins í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og aðra aðila sem búa yfir gögnum og upplýsingum. Þetta er forsenda markvissrar vinnu við skilgreiningu verndarsvæða í hafi auk opinnar umræðu um vistkerfi í hafi og verndun þeirra.

  • Lokið verði við greiningu á áhrifamætti settra reglna um nýtingu nytjastofna í hafi við verndun líffræðilegrar fjölbreytni, m.a. með hliðsjón af leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Greiningin verði unnin af Hafrannsóknastofnun í samstarfi við vísindateymi stýrihópsins og kynnt fyrir helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Ráðherra taki síðan ákvörðun á grunni greiningarinnar auk annarra sjónarmiða hvort svæði sem takmarkanir gilda um varðandi nýtingu nytjastofna verði skilgreind og tilkynnt sem friðlýst svæði eða hluti virkrar svæðisverndar.

  • Í samráði við Samstarfsnefnd matvælaráðuneytisins um bætta umgengni um auðlindir sjávar verði leitað tillagna að svæðum sem kæmu til greina sem verndarsvæði í hafi. Jafnframt verði leitað tillagna um hvernig þessari þekkingu verði best safnað.

  • Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið skoði í samvinnu við Umhverfisstofnun þegar friðlýst svæði og athugi hvort til greina komi að tilkynna fleiri svæði sem friðlýst svæði í hafi. Fjögur svæði hafa þegar verið tilkynnt: Surtsey, Eldey og tvær hverastrýtur í Eyjafirði.

Matvælaráðuneytið hefur tillögur stýrihópsins nú til skoðunar. Næstu skref í starfi hópsins verða m.a. að skilgreina ferli við útnefningu nýrra verndarsvæða, m.a. í samráði við hagsmunaaðila, hverjir geta sett fram tillögur og með hvaða hætti. Einnig verður lokið greiningu á gildandi regluverki um stjórnun nýtingar nytjastofna sjávar og hvernig regluverkið samræmist viðmiðum um aðra virka svæðisvernd. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn ljúki störfum í apríl n.k.

Skýrslu hópsins má finna hér.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum