Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir Samtökin ´78

Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna ´78, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Samtökunum ´78 styrk að upphæð 20 milljónum króna. Styrkurinn er veittur til að sinna ráðgjöf fyrir hinsegin fólk, aðstandendur þess og þau sem ekki eru viss um eigin hinseginleika. Honum verður meðal annars varið í að veita einstaklingsráðgjöf, bjóða upp á stuðningshópa, virknihópa og sinna sértækum stuðningi við flóttafólk sem og eldra fólk. Markmiðið er að styðja einstaklinginn, veita aðstoð og vera til staðar.

„Gríðarleg mikilvæg skref hafa verið stigin á undanförnum árum í réttindabaráttu hinsegin fólks, en því miður hefur orðið bakslag  í viðhorfum á allra síðustu misserum sem afar brýnt er að vinna gegn. Mikilvægt er að styðja við þau sem þurfa aðstoð vegna hinseginleika og stuðla að þátttöku þeirra í samfélaginu. Ég er stoltur af því að styðja við Samtökin ´78,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Eftirspurn eftir ráðgjafaþjónustu Samtakanna ´78 hefur aukist umtalsvert á síðustu árum og hafa samtökin unnið markvisst að því að þróa þjónustuna. Ekki síst hefur transfólk í stórauknum mæli sótt í hana. Markmiðið er að geta boðið öllum þeim sem á þurfa að halda upp á ráðgjöf sem veitt er af fagfólki með góða þekkingu og reynslu af hinseginleikanum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum