Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýtt og skilvirkara fyrirkomulag við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili

Framkvæmdir - myndStjórnarráðið

Fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Áformað er nú að ríkið sjái alfarið um öflun húsnæðis undir rekstur hjúkrunarheimila í gegnum leigusamninga við fasteignafélög og aðra sérhæfða aðila á grundvelli útboða. Tillögur starfshóps þessa efnis voru kynntar fyrir ríkisstjórn á dögunum. Markmiðið er að auka hagkvæmni, sérhæfingu og skilvirkni á þessu sviði og stuðla að því að framboð hjúkrunarrýma haldist í hendur við vaxandi þörf á komandi árum.

Gildandi fyrirkomulag miðast við að ríki og sveitarfélög standi saman að byggingu húsnæðis undir hjúkrunarheimili. Ríkið greiðir að jafnaði 85% stofnkostnaðar á móti 15% framlagi sveitarfélags að lágmarki og leggur sveitarfélagið jafnframt til lóð og ber kostnað af nauðsynlegri gatnagerð. Undanfarin ár hafa orðið töluverðar tafir á framkvæmdum við byggingu nýrra hjúkrunarheimila.

„Þetta eru vel unnar tillögur sem munu styrkja það mikilvæga verkefni að mæta hraðar vaxandi þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma, bæta þjónustu við aldraða og stuðla að því markmiði að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og réttum tíma“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Með nýju fyrirkomulagi setjum við okkur þau markmið að auka hagkvæmni og framkvæmdahraða vegna fjárfestinga í hjúkrunarheimilum og að tryggja fjármuni til nauðsynlegs viðhalds og endurbóta þegar þeirra er þörf, en hvortveggja er stórt framfaraskref í þessum brýna málaflokki“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra.

Í tillögum starfshópsins er bent á breytingar sem undanfarið hafa verið gerðar á almennri fasteignaumsýslu ríkisins. Þar er áhersla lögð á að aðgreina umsýslu fasteigna frá rekstraraðila og er þá leiga greidd fyrir afnot af húsnæðinu. Þetta er gert til að tryggja faglega, örugga og hagkvæma umsýslu ríkiseigna, fjárhagslegt gagnsæi við fasteignareksturinn og samræmt utanumhald vegna viðhalds og endurbóta húsnæðis. Hópurinn leggur til að sami háttur verði hafður á við húsnæði hjúkrunarheimila. Miðað er við að leigugreiðslur fyrir húsnæði hjúkrunarheimila verði staðlaðar og byggðar á skilgreindum forsendum sem taka m.a. mið af gæðum húsnæðisins. 

Kjarni breytinganna:

  • Hægt verður að hraða fjölgun hjúkrunarrýma í samræmi við vaxandi þörf.
  • Fjöldi rýma á nýjum hjúkrunarheimilum verður skilgreindur með hliðsjón af þjónustuþörf, rekstrarhagkvæmni og eftirspurn.
  • Bygging, rekstur og viðhald húsnæðisins verður á hendi sérhæfðra aðila og að fullu aðskilið frá rekstri þjónustunnar.
  • Húsaleiga verður greidd í formi húsnæðisgjalds sem miðast við eðlilegt endurgjald fyrir húsnæði af þessum toga. Þannig verða jafnframt tryggðir fjármunir til að sinna reglulegu og fullnægjandi viðhaldi og endurbótum á húsnæðinu.
  • Til lengri tíma litið er stefnt að því að leigugreiðslur verði einnig innleiddar fyrir húsnæði hjúkrunarheimila sem þegar hafa verið byggð og eru í rekstri.

Meðfylgjandi er skýrsla starfshópsins sem skipaður var fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum