Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Staðreyndir um verndarumsóknir og fjölskyldusameiningar

Undanfarnar vikur hafa stjórnvöld átt í samráði við Norðurlönd og aðrar vinaþjóðir vegna dvalarleyfa og fjölskyldusameiningar palestínskra dvalarleyfishafa á Íslandi.

Líkt og fram hefur komið er Ísland ekki með sendiráð á svæðinu, aðstoð annarra Norðurlanda takmörkuð og fjöldinn sem er undir er verulegur, langt umfram nágrannaríki Íslands miðað við höfðatölu, og í mörgum tilfellum einnig í eiginlegum tölum. Ísland sker sig enda úr meðal Norðurlanda þegar kemur að alþjóðlegri vernd, bæði í fjölda umsókna og veitingu.

Norðurlönd hafa í einhverjum tilvikum aðstoðað fólk yfir landamæri Gaza og Egyptalands, í flestum tilvikum ríkisborgara, fjölskyldur þeirra og dvalarleyfishafa sem höfðu dvalarleyfi fyrir 7. október og höfðu áður dvalið í viðkomandi landi. Að jafnaði er um fáa einstaklinga að ræða skv. upplýsingum stjórnvalda og hafa fjölskyldusameiningar almennt ekki verið veittar þar frá 7. október, ólíkt því sem hér er.

Áfram er fylgst grannt með stöðu mála á Gaza og þeim möguleikum sem til staðar eru í þessum efnum. Í ljósi umræðu um málið á opinberum vettvangi er ástæða til að rekja hér nokkrar staðreyndir um málið.

Ísland fær hlutfallslega margfalt fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en hin Norðurlöndin

Samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir hafa umsóknir um alþjóðlega vernd verið hlutfallslega flestar á Íslandi frá árinu 2017. (Sjá: Upplýsingavefur um verndarmál  og Eurostat)  
Árið 2022 fengu 1.135 einstaklingar alþjóðlega vernd á Íslandi, af 2.162 einstaklingum sem sóttu um. Umsækjendur frá Úkraínu eru ekki taldir með og er heildartalan því umtalsvert hærri. Til samanburðar má nefna að á sama ári fékk Danmörk 2.527 umsóknir og samþykkti 1.403, en hafa ber í huga að þar eru umsóknir um framlengingu verndar taldar með sem eykur fjölda umsókna og hlutfallslega hækkun verndar.

Noregur fékk 4.090 umsóknir og samþykkti 1.294, Svíþjóð fékk 16.738 umsóknir og samþykkti 3.742 og Finnland fékk 4.683 umsóknir og samþykkti 1.760.

Ef tekið er tillit til höfðatölu er því ljóst að Ísland fékk margfalt fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en hin Norðurlöndin, eða um 580 umsóknir á hverja 100.000 íbúa, auk þess sem veitt vernd er hæst á Norðurlöndunum eða 304 einstaklingar sem fá veitta vernd á hverja 100.000 íbúa. Þetta má sjá nánar í meðfylgjandi töflu.

 

 

2022

Umsóknir

Veitt vernd

Umsóknir / 100 þús. Íb.

Vernd / 100 þús. íbúa

 

Ísland

2.162

1.135

580

304

 

Danmörk

2.527

1.403

43

24

Noregur

4.090

1.294

75

24

Svíþjóð

16.738

3.742

159

35

Finnland

4.683

1.760

84

32

 

Umsóknir Palestínumanna um vernd á Íslandi margfalt fleiri en á öðrum Norðurlöndum

Ísland sker sig úr þegar kemur að umsóknum Palestínumanna um alþjóðlega vernd. Árið 2023 bárust íslenskum stjórnvöldum 223 umsóknir um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum Palestínu en í Svíþjóð voru þær 86. Danmörk, Finnland og Noregur flokka umsóknir frá Palestínumönnum sem umsóknir frá ríkisfangslausum einstaklingum og því liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um fjölda umsókna frá Palestínumönnum í þeim löndum. Ástæðan fyrir þeirri flokkun er að ríkin viðurkenna ekki Palestínu sem sjálfstætt ríki. Þó liggur fyrir að 30. nóvember 2023 höfðu dönskum stjórnvöldum borist 82 umsóknir frá ríkisfangslausum einstaklingum. Umsóknir frá ríkisfangslausum einstaklingum árið 2023 voru 11 í Finnlandi og 92 í Noregi. Að teknu tilliti til þeirra upplýsinga liggur fyrir að fjöldi umsókna frá Palestínumönnum um vernd á Íslandi er sambærilegur og samanlagður fjöldi umsókna Palestínumanna um vernd á öllum hinum Norðurlöndunum.

Umsóknir Palestínumanna um vernd á Norðurlöndum

 

Ísland

Svíþjóð

Noregur

Danmörk

Finnland

Umsóknir Palestínumanna

223

86

<92

<82

<11

 

Skýringin á þessum mun á fjölda umsókna er líklega fólgin í frávikum í lögum, reglum eða framkvæmd laga um útlendinga hér á landi frá grannþjóðum okkar, sem virðist gera Ísland eftirsóttara land en önnur Norðurlönd í augum þessa hóps. Töluverður hluti palestínskra umsækjenda hér á landi hefur t.a.m. fengið vernd í öðru Evrópuríki áður en sótt er um vernd hérlendis. Frá árinu 2015 hafa um 750 Palestínumenn sótt um alþjóðlega vernd hérlendis og eru um 80% þeirra karlmenn. Af þeim voru um 53% þegar búnir að fá veitta alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki.

Reglur um fjölskyldusameiningar eru mun rýmri á Íslandi en á Norðurlöndum

Umtalsverður munur er á löggjöf og framkvæmd Norðurlandanna þegar kemur að meðferð verndarmála og fjölskyldusameiningar. Í Danmörku þurfa þeir sem fá viðbótarvernd  að bíða í tvö ár áður en fjölskyldusameining getur komið til greina. Þá þurfa umsækjendur og þeir einstaklingar sem verið er að sameinast almennt að uppfylla ákveðnar inngildingarkröfur, m.a. standast próf í dönsku. Reglur um fjölskyldusameiningar eru mun rýmri á Íslandi.

https://www.nyidanmark.dk/en-GB/You-want-to-apply/Family/Family-reunification/Spouse-or-partner-of-refugee-in-Denmark

Þá er almennt ekki hægt að leggja inn umsóknir um dvalarleyfi í norrænu höfuðborgunum fyrir hönd fjölskyldumeðlima sem eru staddir erlendis. Viðkomandi umsækjandi þarf sjálfur að koma sér í norræna sendiskrifstofu og leggja fram umsókn í eigin persónu. Ísland hefur aldrei búið að svo þéttu neti af sendiskrifstofum erlendis að þetta hafi komið til greina. Þessi munur hefur leitt til þess að eftir að átök brutust út á Gaza hefur verið útilokað að leggja fram umsóknir um frekari fjölskyldusameiningar á hinum Norðurlöndunum og ekki liggur fyrir að breytingar hafi verið gerðar á þessu skilyrði til rýmkunar.

Yfirvöldum ber ekki skylda til þess að senda íslenska ríkisborgara til þess að sækja fólk til Gaza

Í lögum um útlendinga er hvergi kveðið á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að aðstoða dvalarleyfishafa til að komast til landsins, þ. á m. fjölskyldumeðlimi einstaklinga sem hafa fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Skyldan sem hvílir á íslenskum stjórnvöldum samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, er sú að gefa út dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar séu lögbundin skilyrði uppfyllt. Slík dvalarleyfi takmarkast við kjarnafjölskyldu og eru því aðeins veitt nánustu aðstandendum einstaklinga sem búsettir eru hér á landi og hafa rétt til fjölskyldusameiningar. Allar frekari aðgerðir í þessum efnum væru því umfram lagaskyldu og eiga sér fá fordæmi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem stjórnvöldum hafa borist hafa Norðurlöndin fyrst og fremst aðstoðað eigin ríkisborgara, fjölskyldur þeirra og dvalarleyfishafa, sem höfðu dvalarleyfi fyrir 7. október, við að komast út af Gaza. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum