Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnunartími Hringsjár lengdur og þjónusta tryggð allt árið

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður Hringsjá, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Laufey Gunnlaugsdóttir sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður Hringsjár, náms- og starfsendurhæfingar, hafa undirritað samning sem gerir Hringsjá kleift að hafa lengri opnunartíma og tryggja þannig þjónustu allt árið. Hluti styrksins mun auk þess verða nýttur til að þróa og kenna námsbraut fyrir fólk af erlendum uppruna. Samningurinn er að upphæð 40 milljónum króna og nær til áranna 2024 og 2025.

Hringsjá heldur úti náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri, sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa að skipta um starfsvettvang eða endurmeta og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði og til frekara náms. Þjónustan hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Um er að ræða nám sem almennt stendur yfir í þrjár annir. Nemendur fá náms- og starfsráðgjöf á meðan á náminu stendur, sem og félagslega ráðgjöf og iðjuþjálfun.

Markmið endurhæfingarinnar er að henni lokinni verði þátttakendur færir um að takast á við nám í almennum skóla eða stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Eftirfylgni að loknu fullu námi hjá Hringsjá felst í því að styðja fólk áfram í námi, starfi eða markvissri starfsleit. 

Hringsjá stendur einnig fyrir ýmiss konar námskeiðum sem almennt eru skipulögð sem undanfari að fullu námi, auk þess að halda svokölluð Davis-námskeið vegna lesblindu.

Námsbraut fyrir fólk af erlendum uppruna

Nýja námsbrautin fyrir fólk af erlendum uppruna er byggð á sömu hugmyndafræði og námið í Hringsjá. Kennd verður íslenska sem annað mál, upplýsingatækni, enska, stærðfræði og fleiri fög til eininga. Einnig verður boðið upp á sálfræðiþjónustu, heilsueflingu og stoðþjónustu eftir þörfum. Reiknað er með að hægt verði að taka á móti fyrstu nemendunum haustið 2024.

Hringsjá hefur starfað frá árinu 1987 og er frumkvöðull á sviði náms- og starfsendurhæfingar. ÖBÍ-réttindasamtök eru eigandi Hringsjár. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum