Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samningaviðræður um þátttöku Íslands í áætlun um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt mögulega þátttöku Íslands í áætlun Evrópusambandsins um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti fyrir ríkisstjórn. Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að hefja samningaviðræður við Ísland um þátttöku landsins í áætluninni. 

Markmið áætlunarinnar, sem á ensku kallast Secure Connectivity Programme, er að tryggja til frambúðar aðgengi að hraðvirkum, öruggum og hagkvæmum fjarskiptum um gervihnetti á heimsvísu. Þar að auki er ætlast til þess að hún styðji við mikilvæga fjarskiptainnviði innan ESB og tryggi aðgengi löggæslu og viðbragðsaðila að öruggum fjarskiptum á neyðarstundu. Áformin fela jafnframt í sér uppbyggingu á kerfi sem einkaaðila gætu nýtt til að bjóða hraðvirka netþjónustu um alla Evrópu, þ.m.t. á dreifbýlum svæðum. 

Hagsmunir Íslands af þátttöku í áætlun um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti gæti falist í eftirfarandi þáttum:

  • Að hafa rödd við þróun og uppbyggingu kerfisins með það að markmiði að þjónustan verði til staðar fyrir Ísland. 

  • Að tryggja aðgang að öruggu og lokuðu fjarskiptakerfi fyrir opinbera löggæslu-, neyðar- og viðbragðsaðila sem væru á forræði opinberra aðila. Mögulega einnig í öryggis- og landvarnarskyni.

  • Að hafa aðgang að netþjónustu fyrir mikilvæga samfélagsinnviði ef landið yrði fyrir alvarlegri netárás eða að samband um sæstrengi myndi af einhverjum ástæðum rofna. 

  • Að tryggja íbúum á dreifbýlustu svæðum landsins aðgang að netþjónustu og/eða aðilum sem þurfa aðgang á hálendinu.

  • Að greiða fyrir þátttöku íslenskra aðila, s.s. háskóla, stofnana og fyrirtækja, að þróun, uppbyggingu og rekstri kerfisins.

Lagt er til að Ísland hefji viðræður um hugsanlega aðild að áætluninni undir forystu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, sem fer með netöryggis- og fjarskiptamál, í samstarfi við innviðaráðuneytið og utanríkisráðuneytið auka annarra ráðuneyta og EFTA-skrifstofunnar í Brussel. Til skoðunar er hvort þátttaka Íslands verði á grundvelli tvíhliða samkomulags við ESB eða í gegnum EES-samninginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum