Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp um lokað búsetuúrræði til umsagnar í Samráðsgátt

Dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram til umsagnar drög að frumvarpi til laga um lokað búsetuúrræði. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að vista útlendinga í lokaðri búsetu þegar tryggja þarf návist útlendingsvegna framkvæmdar ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Með frumvarpinu er verið að hverfa frá framkvæmd gildandi laga sem kveða á um að heimilt sé að handtaka útlending í þessari stöðu og færa í gæsluvarðhald.

Vistun í lokaðri búsetu samkvæmt frumvarpinu verður eingöngu beitt sem síðasta úrræði þegar fullnægjandi mat hefur verið lagt á það og staðfest að vægari úrræði muni ekki skila árangri.

Frumvarpið kveður á um að óheimilt verði að vista fylgdarlaus börn í lokaðri búsetu. Það verður því eingöngu heimilt að vista börn í lokaðri búsetu þegar þau eru í fylgd með foreldri eða umsjónarmanni. Ríkari kröfur eru gerðar til vistunar barna í lokaðri búsetu og felst það meðal annars í því að strangari kröfur eru gerðar til mats á nauðsyn þess að vista barn og til þess að meðalhófs sé gætt við ákvarðanatöku. Aðskilnaður verður á milli kynja, en í lokuðum búsetum annarra landa í kringum okkur eru einstæðir karlmenn almennt í einu húsnæði og konur, börn og fjölskyldur í öðru.

 

Helstu ástæður fyrir þessu frumvarpi

  • Ekki er talið forsvaranlegt að úrskurða útlendinga í gæsluvarðhald og vista í fangelsi til þess eins að tryggja framkvæmd ákvörðunar um að viðkomandi skuli yfirgefa landið, eins og gildandi lög gera ráð fyrir.
  • Innleiða þarf að fullu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir endursendingu ríkisborgara utan EES-svæðisins sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, svokallaða brottvísunatilskipun.
  • Bregðast þarf við athugasemdum eftirlitsnefndar með Schengen-samstarfinu við það fyrirkomulag gildandi laga að útlendingar í þessari stöðu séu vistaðir í fangelsi. 

 

Frumvarpið var lagt fram í Samráðsgátt þann 19. janúar og verður opið til umsagnar í tvær vikur.

Drög að frumvarpi um lokað búsetuúrræði í Samráðsgátt

 

Um Samráðsgátt

Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum