Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tímamótasamningur um samstarf ríkis og landeiganda um uppbyggingu og verndun Fjaðrárgljúfurs

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Brynjólfur J. Baldursson, Stjórnarformaður HB Heiði ehf. og Hverabergs ehf. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og landeigendur jarðarinnar Heiði í Skaftárhreppi, Hveraberg ehf., hafa gert með sér tímamótasamning sem kveður á um samstarf um verndun Fjarðárgljúfurs sem er í einkaeigu og uppbyggingu innviða þar.   

Samningurinn er frekari útfærsla á samkomulagi sem ráðherra og landeigendur gerðu með sér í júní  2022 við kaup Hverabergs ehf. á Heiði og fól i sér að umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytið og landeigendur muni í sameiningu vinna að verndun og friðlýsingu Fjaðrárgljúfurs. 

Vinsældir svæðisins eru miklar og hafa aukist mjög á síðari árum. Fjöldi þeirra sem sækja staðinn heim hefur jafnvel leitt til þess að loka hefur þurft svæðinu tímabundið vegna ágangs.

Mikil þörf er því á uppbyggingu innviða til verndar náttúru og til að bæta öryggi þeirra sem fara um svæðið ásamt landvörslu til að fræða og upplýsa um náttúruvættið, en landvörslu hefur hingað til verið sinnt af Umhverfisstofnun.

Taka við verkefnum varðandi verndun og landvörslu

Samkvæmt samningnum tekur landeigandinn Hveraberg ehf. frá og með undirritun hans við verkefnum er varða verndun náttúru og landvörslu á svæðinu, ásamt umsjón, viðhaldi og rekstri innviða og þjónustu.

Landeigandi mun auk þess byggja upp ýmsa þjónustu við ferðamenn sem sækja staðinn heim eins og t.d. snyrtingar og gestaaðstöðu og mun innheimta bílastæðagjöld til að standa fyrir uppbyggingu og rekstri. Í samræmi við reglur náttúruverndarlaga um almannarétt verður þeim sem ekki þurfa að nýta bílastæðið þó áfram heimilt að fara um svæðið án gjaldtöku og njóta þar náttúrunnar.  

Fyrirhuguð aðstaða við Fjaðrárgljúfur.

Fyrirhuguð aðstaða við Fjaðrárgljúfur. Teikning/HB Heiði

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er einstaklega ánægjulegt að þetta tímamóta samkomulag hafi náðst við landeigendur Heiðar um vernd Fjaðrárgljúfurs og uppbyggingu innviða þar. Það á líka að vera eðlilegt að ríki og landeigendur geti í sameiningu staðið að uppbyggingu og verndun á náttúruperlum sem ferðamenn njóta þess að heimsækja.“  

Brynjólfur J. Baldursson, stjórnarformaður HB Heiði ehf. og Hverabergs ehf.:  Það er gríðarlega jákvætt að hafa náð þessum áfanga með ríkinu og erum við mjög ánægðir með samstarf okkar með yfirvöldum og sveitarfélaginu ásamt öðrum hagsmunaðilum.  Við erum mjög spenntir að hefja uppbyggingu á þessu einstaka svæði þar sem áherslan verður á verndun náttúru og góða upplifun ferðamanna og annara gesta.

Unnið er nú að friðlýsingu svæðisins af hálfu Umhverfisstofnunar, í samstarfi við landeigendur Heiðar og annarra jarða sem eiga land að gljúfrinu, sem og aðra hagsmunaaðila. Stefnt er að því að friðlýsingarferli ljúki árið 2024, en þegar Fjaðrárgljúfur hefur verið friðlýst mun ríkið falla frá kauprétti jarðarinnar sem gert var ráð fyrir í samningi aðila frá 2022.

Fjaðrárgljúfur

Fjaðrárgljúfur. Ljósmynd/HB Heiði


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum