Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður við fæðuöryggi skólabarna með loftslagsverkefni í Úganda

Sveinn H. Guðmarsson, verkefnastjóri hjá sendiráði Íslands í Kampala, Hildigunnur Engilbertsdóttir forstöðumaður, Abdirahman Meygag, yfirmaður WFP í Úganda, og Magnus Bruun Rasmussen, hjá WPF. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja samstarf við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna á sviði loftslagsmála í Úganda sem jafnframt stuðlar að auknu fæðuöryggi fátækra skólabarna. Orkusparandi eldunaraðstaða verður sett upp í tugum skóla og þúsundir trjáa gróðursett á einu snauðasta svæði landsins. 

Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Abdirahman Meygag, yfirmaður Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme – WFP) í Úganda, undirrituðu samning um fjármögnun verkefnisins í gær, á alþjóðlegum degi menntunar. Nemur heildarupphæðin 300 þúsund bandaríkjadölum, jafnvirði 41 milljónar króna.

 Verkefnið miðar að því að draga úr kolefnislosun vegna skólamáltíða með uppsetningu á orkusparandi eldunaraðstöðu í 74 skólum í Karamoja í norðaustanverðu Úganda þar sem 42.000 nemendur stunda nám. Um leið stuðlar verkefnið að auknu fæðuöryggi þar sem bætt eldunaraðstaða er mikilvægur liður í að tryggja börnum næringarríkar skólamáltíðir.  Matreiðslufólk í skólum mun einnig fá þjálfun og fræðslu um sjálfbæra matvinnslu og næringarríka og umhverfisvæna matargerð.

Mikilvægt verkefni þar sem þörfin er hvað mest

Fátækt er óvíða meiri í Úganda en á Karamoja-svæðinu. Þrír af hverjum fjórum íbúum lifa við mikla fátækt og vannæring barna er viðvarandi. Það hefur meðal annars þær afleiðingar að skólasókn þeirra er almennt léleg. Þá hefur umhverfi á svæðinu hnignað jafnt og þétt, meðal annars af völdum skógarhöggs vegna kolavinnslu.

Orkusparandi eldunaraðstaða í skólum svæðisins þýðir að helmingi færri tré eru höggvin í eldivið en ella, eða um 24.000 í stað 59.000 á ári hverju. Samhliða bættri aðstöðu verða 400.000 loftslagsþolin akasíu- og dísartré gróðursett í nágrenni við skólana. Þá fá íbúar héraðanna fræðslu um orkusparandi eldhlóðir til heimilisnota með það að markmiði að auka notkun þeirra. 

Verkefnið er í samræmi við þróunaráætlun Úganda og stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, sérstaklega þeim markmiðum er snúa að umhverfis- og loftslagsmálum. Verkefnið styður jafnframt við markmið um bætta menntun, námsumhverfi og næringu barna.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er áherslustofnun fyrir mannúðaraðstoð Íslands og er jafnframt samstarfsaðili í heimaræktuðum skólamáltíðum í tvíhliða samstarfslöndunum Malaví og Síerra Leóne. Þá leiðir Ísland ásamt öðrum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna svokallað Skólamáltíðarbandalag.

  • Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Abdirahman Meygag, yfirmaður Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) í Úganda, eftir undirritun samningsins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum