Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2024 Forsætisráðuneytið

Skýrslu um virðismat starfa í þágu launajafnréttis skilað til forsætisráðherra

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni.

Starfshópurinn var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í árslok 2021 með það að markmiði að koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa í því skyni að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum.

Fjórar opinberar stofnanir tóku þátt í umræddu þróunarverkefni sem unnið var í samstarfi við Jafnlaunastofu sem rekin er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Stofnanirnar sem tóku þátt eru embætti ríkislögreglustjóra, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Tryggingastofnun. Meðal tillagna aðgerðahóps er að haldið verði áfram vinnu við þróunarverkefni um virðismat starfa og að stofnað verði til samstarfsvettvangs um heildstætt virðismatskerfi sem taki til ríkisstofnana.

Upplegg verkefnisins felur í sér breiðari nálgun á virðismati starfa en áður hefur verið notuð hjá ríkinu. Gögnum á borð við starfslýsingar, viðmið sem notuð eru við jafnlaunavottun og röðun í störf var safnað og í kjölfarið haldnir vinnufundir með hverri stofnun. Á þeim grunni vann Jafnlaunastofa tillögu að virðismatskerfi í þágu launajafnréttis.

„Ég fagna mjög þeirri framsæknu vinnu sem unnin hefur verið á vettvangi aðgerðahópsins og tel eftirfylgni þeirra tillagna sem settar eru fram í skýrslunni nauðsynlegt næsta skref til að útrýma þeim kynbundna launamun sem eftir stendur á vinnumarkaði“, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.    

Virðismat starfa – skýrsla aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði

Virðismatskerfi í þágu launajafnréttis – unnið fyrir aðgerðahóp um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum