Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin áhersla á vinnuvernd

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd
Aukin samfélagsleg umræða um vinnuvernd, Vinnuverndarsjóður og góð heilsa, vellíðan og öryggi starfsfólks eru meðal efnis þriggja samninga sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, hafa undirritað.

Forvarnaverkefni um mikilvægi vinnuverndar

Í nóvember síðastliðinn ýtti Vinnueftirlitið úr vör viðamiklu átaksverkefni undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman: Eflum heilbrigða vinnustaðamenningu.

Markmiðið var að vekja athygli á því að heilbrigð vinnustaðamenning stuðlar að öryggi og vellíðan starfsfólks og er ein áhrifaríkasta forvörnin gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Verkefnið hlaut styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og auglýsingin Ertu í lagi eftir daginn? var meðal annars birt í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum:


Á síðastliðnu ári var einnig vakin athygli á mikilvægi þess að tilkynna vinnuslys, öryggi við skurðgröft, réttar vinnustellingar við mannvirkjagerð og vinnu barna og ungmenna svo eitthvað sé nefnt. Markmið allra þessara verkefna var að hvetja til samfélagslegrar umræðu um mikilvægi vinnuverndar og stuðla þannig að jákvæðri ímynd og viðhorfi almennings til vinnuverndarstarfs.

Samningur Vinnueftirlitsins og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um verkefnið hefur nú verið framlengdur og fær Vinnueftirlitið 20 milljónir króna á árinu vegna þess.

Vinnuverndarsjóði komið á fót

Vinnuverndarsjóður er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Vinnueftirlitsins. Markmið hans er að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að bættri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði. Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að þessu.

Sjóðnum var komið á fót í fyrra með framlagi frá ráðuneytinu og óskað var eftir umsóknum um styrki í hann síðastliðið haustStjórn sjóðsins annast mat á styrkumsóknum en hana skipa fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Vinnueftirlitinu. Stefnt er að fyrstu úthlutun í febrúar nk. og eru samtals 10 milljónir króna til úthlutunar.

Vinnueftirlitið fær 5 milljónir króna frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á árinu 2024 til að fjármagna sjóðinn og leggur stofnunin til sömu fjárhæð.  

Góð heilsa, vellíðan og öryggi starfsfólks

Vinnueftirlitið hlaut í fyrra styrk vegna þriggja ára samstarfsverkefnis sem sett var af stað til að bregðast við niðurstöðum rannsóknar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið. Í rannsókninni var staða fólks á íslenskum vinnumarkaði metin, sem og ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði. Rannsóknin var birt í fyrra og í ljós kom að starfsfólk innan skólakerfisins og starfsfólk sem starfar við heilbrigðis- og félagsþjónustu virtist upplifa meira andlegt áreiti en aðrar starfsstéttir.

Í kjölfarið var komið á þriggja ára samstarfsverkefni til að greina áhættuþætti í vinnuumhverfi framangreindra starfsstétta, þar á meðal áhrif vinnustaðamenningar, skipulags og samskipta, sem geta orsakað að starfsfólk upplifir meira andlegt áreiti en starfsfólk innan annarra starfsstétta. Þegar er hafið verkefni sem lýtur að vinnuumhverfi starfsfólks í leik- og grunnskólum og síðar verður sjónum beint að vinnuumhverfi fólks sem starfar við heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Vinnueftirlitið hefur fengið 10 milljónir króna til að halda áfram með samstarfsverkefnið á árinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum