Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aukinn stuðningur við syrgjendur

Hólmfríður Anna Baldursdóttir stjórnarmeðlimur Sorgarmiðstöðvar, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Berglind Arnardóttir stjórnarformaður, Ína Ólöf Sigurðardóttir framkvæmdastjóri, Hulda Guðmundsdóttir stjórnarmeðlimur, Jóhanna María Eyjólfsdóttir fagstjóri og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra við undirritun samnings - mynd

Mennta- og barnamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa gert samning við Sorgarmiðstöðina um aukinn stuðning við syrgjendur. Miðstöðin sinnir stuðningi, fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð syrgjenda.

Sérstaklega er horft til þess að auka aðgengi að ráðgjafasamtölum, stuðningshópastarfi og jafningjastuðningi Sorgarmiðstöðvarinnar. Þá skal miðstöðin halda áfram að styðja við innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar í skólum og nærsamfélagi barna og efla kennara og umsjónaraðila barna í viðbrögðum við sorg og missi. Samkvæmt samningnum skal Sorgarmiðstöðin einnig bjóða upp á

  • fræðsluerindi um sorg og sorgarviðbrögð barna í forvarnaskyni sem miðar að því að styrkja skóla-, íþrótta- og tómstundastarf í vinnu sinni með börnum í sorg,
  • snemmtæka þjónustu þegar andlát hefur orðið í skólaumhverfinu, sem felst í því að fagaðilar veiti stjórnendum og starfsfólki í skólum stuðning, fræðslu og ráðgjöf innan 48 klukkustunda frá því að þjónustubeiðni berst,
  • námskeið fyrir börn í sorg á aldrinum 6-15 ára hjá Sorgarmiðstöð þar sem foreldrar taka þátt í upphafi námskeiðs, fá fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð og ýmis bjargráð,
  • stuðningshópastarf fyrir foreldra barna.

Áhersla er lögð á samvinnu við ríkið, sveitarfélög og fagfólk og að samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Samningurinn er liður í stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum til 2030 um fjölbreytt snemmtæk inngrip og úrræði sem efla geðheilbrigði og draga úr áhrifum áfalla á lífsgæði.

Stuðningurinn nemur samtals 43 milljónum króna á árinu 2024 frá ráðuneytunum þremur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum