Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Viðbótarframlög til Rauða krossins og Alþjóðabankans vegna Palestínu

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita viðbótarframlög til Rauða krossins á Íslandi vegna þeirrar neyðar sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá hefur verið ákveðið að Ísland verði aðili að sjóði á vegum Alþjóðabankans sem styðja mun við enduruppbyggingu og endurreisn innviða í Palestínu.

„Ísland hefur undanfarið veitt verulega fjármuni til svæðisins vegna þeirra hörmunga sem íbúar ganga nú í gegnum. Með þessu sýnum við enn frekari stuðning okkar í verki. Með framlaginu til Alþjóðabankans felst mikilvægur stuðningur við endurreisn Palestínu að átökunum loknum, en bankinn mun hafa lykilhlutverki að gegna í þeim efnum. Við horfum líka til ástandsins nú, sem er skelfilegt, og höldum áfram að leggja af mörkum til mannúðarstarfs,“ segir utanríkisráðherra.

Um er að ræða 25 milljóna króna framlag til Rauða krossins á Íslandi til að styðja við starfsemi Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sem starfar með palestínska Rauða hálfmánanum á Gaza og veitir nauðsynlega og lífsbjargandi aðstoð. Þá hefur ráðherra ákveðið að ganga frá samningi við Alþjóðabankann um framlög til næstu fimm ára í sjóð (Palestinian Partnership for Infrastructure Development) sem styður við enduruppbyggingu og endurreisn innviða í Palestínu, einkum á Gaza. Árlegt framlag í sjóðinn mun nema 400 þúsund Bandaríkjadölum. Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Hin Norðurlöndin eiga þegar aðild að sjóðnum og hafa jákvæða reynslu af störfum hans, en önnur aðildarríki eru Bretland, Ástralía, Frakkland, Holland, Ítalía, Króatía og Portúgal.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum