Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

​Skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2023 og formennsku Íslands

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, í fyrirspurnatíma á þingi Norðurlandaráðs meðan Ísland gegndi formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, hafði í dag framsögu á Alþingi um skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2023. Ísland gegndi formennsku og var því í forsvari fyrir samstarfið á árinu 2023. Í skýrslunni er leitast við að varpa ljósi á þau mál sem voru efst á baugi í norrænu samstarfi á árinu, en einnig mál sem Ísland lagði áherslu á og verkefni sem Ísland beitti sér fyrir á formennskuárinu. 

Árið 2023 var annasamt í norrænu samstarfi. Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands var Norðurlönd – afl til friðar. Þar voru áherslur Íslands markaðar í samræmi við framtíðarsýn Norðurlandanna til ársins 2030 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Í formennskuáætluninni var einnig lögð áhersla á frið og vestnorrænt samstarf.

Verkefni sem snerti öll ráðuneyti Íslands

Ísland setti í krafti formennskunnar mark sitt á áherslur og samstarf við hin norrænu löndin. Formennskan var viðamikið og mikilvægt verkefni sem snerti flesta ráðherra og öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Áherslur Íslands á formennskuárinu voru greindar niður í 40 verkefni og góður árangur náðist við að ljúka meginþorra þessara áhersluverkefna, líkt og fjallað er um í skýrslunni. 

Í framsöguræðu Guðmundar Inga á Alþingi sagði hann meðal annars frá þeim góða árangri sem náðst hefur á vettvangi samstarfsins og nefndi einnig mikilvægi þess að eiga trausta og góða samvinnu við Norðurlandaráð og frjáls félagasamtök á Norðurlöndum. Þá nefndi hann að á formennskuárinu setti Ísland meðal annars í forgrunn norrænt samstarf í heilbrigðismálum og lagði áherslu á jafnrétti og réttindi hinsegin fólks, nýjar stafrænar lausnir sem auka aðgengi fólks og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða þegar grænu umskiptin eiga sér stað. 

Löng hefð er fyrir því að skýrsla samstarfsráðherra sé unnin í samvinnu allra þeirra fagráðuneyta sem taka þátt í norrænu samstarfi á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Svo var einnig að þessu sinni.  

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands árið 2023:

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fór með formennsku í nefndinni árið 2023 og leiddi samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum