Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Um 180 milljóna króna viðbótarfjármagn til hjúkrunarheimila

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að auka fjármagn til hjúkrunarheimila um 181 milljón króna á þessu ári til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd íbúa. Með þessu er mætt ákvæði bókunar sem gerð var við framlengingu samninga Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við rekstraraðila hjúkrunarheimila í mars árið 2022. Með bókuninni er gert ráð fyrir að sýni mælingar á hjúkrunarþyngd (RUG stuðull) þörf fyrir aukið fjármagn komi SÍ þeim upplýsingum á framfæri við heilbrigðisráðherra sem geti þá brugðist við með viðbótarframlagi til rekstrarins.

Öll hjúkrunarheimili framkvæma reglulega svokallað RAI-mat sem felur í sér mat á hjúkrunarþörf og heilsufari íbúa á hjúkrunarheimilum með áherslu á gæði þjónustunnar sem veitt er. Niðurstöður þessara mælinga eru lagðar til grundvallar við veitingu fjármagns til hjúkrunarheimilanna (RUG-stuðlar). Hjúkrunarþyngd íbúa á hjúkrunarheimilum hefur aukist umtalsvert á liðnum árum og hefur sú þróun haldist í hendur við hækkandi meðalaldur íbúa heimilanna. Hlutfall íbúa sem eru 90 ára og eldri hefur farið hækkandi en lækkað í aldurshópnum 80-89 ára.

„Við sjáum í þessum tölum samfélagslega og lýðfræðilega þróun. Hlutfall aldraðra af þjóðinni fer hækkandi og þeim fjölgar sem ná háum aldri. Fólk sem þarf á hjúkrunarheimili að halda er því að jafnaði eldra en áður og í þörf fyrir meiri þjónustu. Ásamt þessu viðbótarframlagi hefur markvisst verið unnið að því að auka möguleika fólks á því að búa lengur heima í sjálfstæðri búsetu, m.a. með aukinni heimaþjónustu og fjölgun dagdvalarrýma. Þá hefur kraftmikil samvinna Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, heilbrigðisráðuneytis og Landspítala skilað lausnum til að takast á við aukið álag í heilbrigðiskerfinu“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum