Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður við mannréttindi í Malaví

Representatives from the embassies of Iceland and Norway together with representatives from UNDP after the signing of the agreement. - myndRoyal Norwegian Embassy in Lilongwe.

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Malaví, ásamt fulltrúum sendiráðs Noregs og Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP), undirrituðu á föstudaginn samning um stuðning við stofnanir og samtök sem standa vörð um mannréttindi í landinu. Þá var fyrsta skóflustungan að nýrri stjórnsýslubyggingu í Mangochi-héraði tekin fyrr í vikunni, en framkvæmdin markar tímamót því hún er fjármögnuð sameiginlega af íslenskum og malavískum stjórnvöldum. 

Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví, skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd í höfuðstöðvum UNDP í Lilongwe. Verkefninu er ætlað að efla réttarkerfið sem og styrkja stoðir og sjálfstæði stofnana sem láta sig mannréttindi í Malaví varða. Má þar nefna Mannréttindastofnun Malaví, skrifstofu umboðsmanns sem og frjáls félagasamtök sem vinna að þessum málum. Sérstök áhersla er lögð á hagsmuni og réttindi ólíkra og viðkvæmra jaðarsettra hópa, þar á meðal hinsegin fólks og fatlaðra. Verkefnið, sem er til þriggja ára, er í samræmi við aukna mannréttindaáherslu í þróunarsamvinnu Íslands.

„Ísland tekur alvarlega skuldbindingu sína, um að virða, vernda og efla mannréttindi í verki, bæði alþjóðlega og í samstarfsríkjum Íslands,“ sagði Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, í ávarpi sem hún flutti við athöfn í tilefni af undirrituninni. 

Þá fundaði Elín með Nancy Tembo, utanríkisráðherra Malaví, þar sem blómleg þróunarsamvinna Íslands og Malaví til áratuga var efst á baugi, en í ár verða liðin 35 ár síðan samstarf ríkjanna hófst.

Í takt við áherslur Íslands í þróunarsamvinnu

Mannréttindi eru áherslumál í utanríkisstefnu Íslands og ofarlega á baugi í allri þróunarsamvinnu. Sendiráð Íslands í Lilongwe hefur um árabil stutt við grundvallarréttindi fólks í gegnum sérstök héraðsþróunarverkefni í landinu með áherslu á efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Síðustu ár hefur sendiráðið svo innleitt frekari áherslu á borgaraleg réttindi.

Fyrr í vikunni var efnt til hátíðlegrar athafnar í Mangochi, öðru tveggja samstarfshéraða Íslands í Malaví, þar sem fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri byggingu fyrir fundarsal og fjármálaskrifstofu héraðsstjórnarinnar. Richard Chimwendo Banda, ráðherra sveitastjórnamála, var viðstaddur athöfnina. Stuðningur Íslands við framkvæmdina er liður í að efla getu héraðsstjórnarinnar til að sinna sjálf framkvæmd héraðsverkefna í samræmi við vandaða og góða stjórnsýsluhætti. Um leið styður verkefnið við valddreifingarstefnu malavískra stjórnvalda. Það markar tímamót að því leyti að framkvæmdirnar eru fjármagnaðar í sameiningu af íslenskum og malavískum stjórnvöldum. Áætlaður kostnaður við bygginguna nemur um 180 milljónum íslenskra króna og þar af greiða íslensk stjórnvöld um 60 prósent kostnaðarins.

Í síðustu viku fór jafnframt fram samráðsfundur í Malaví með fulltrúum utanríkisráðuneytisins og útsendum starfsmönnum í sendiráðum Íslands í Afríku. Auk þess að ráða ráðum sínum og skerpa á markvissri framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndunum kynnti hópurinn sér verkefnin sem unnið er að í Malaví og hitti fulltrúa félagasamtaka sem starfa þar. Má þar nefna Þroskahjálp, sem vinnur að verkefni í landinu ásamt sambærilegum innlendum samtökum. Ísland starfar nú í þremur samtarfslöndum í Afríku; Malaví, Úganda og Síerra Leóne þar sem sendiráðin hafa umsjón með undirbúningi, skipulagi og framkvæmd verkefna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum