Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Mislingar og mikilvægi bólusetningar

Útbrot af völdum mislinga - myndMynd: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Mislingasmit greindist á Landspítala hjá fullorðnum einstaklingi sem kom til landsins fimmtudaginn 1. febrúar. Sóttvarnalæknir brást tafarlaust við upplýsingum um smitið með smitrakningu í samvinnu við umdæmislækni höfuðborgarsvæðis, heilsugæsluna og Landspítala. Búið er að hafa samband við alla sem hugsanlega hafa verið útsettir fyrir smiti, sbr. tilkynning sóttvarnalæknis 3. febrúar.

Mislingar er mjög smitandi veirusjúkdómur sem einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Einkenni geta komið fram hjá smituðum 1–3 vikum eftir smit. Þau sem hafa verið bólusett fyrir mislingum eða fengið mislinga áður smitast mjög ólíklega en ef það gerist eru einkenni oftast væg. Óbólusettir eru hins vegar í áhættu fyrir smiti og veikindum. 

Ef grunur vaknar um mislingasmit

Ef grunur vaknar um að barn eða fullorðinn einstaklingur sé með mislinga er mikilvægt að fólk mæti ekki á heilsugæslustöð eða sjúkrahús vegna hættu á hópsmiti. Þess í stað er fólki ráðlagt að hringja í síma 1700 eða hafa samband  í gegnum netspjall Heilsuverutil að fá ráðleggingar um næstu skref. 

Bólusetning fer fram á heilsugæslustöðvum

Bólusetningarátak stendur nú yfir og veitir bóluefnið um 95% vörn gegn mislingum. Heilsugæslan hvetur foreldra til að tryggja að börn þeirra séu bólusett við mislingum og hefur birt upplýsingar á vef sínum þar að lútandi. Mælt er með bólusetningu hérlendis við 18 mánaða aldur og síðan annarri bólusetningu við 12 ára aldur.

Foreldrar barna 18 mánaða og eldri sem ekki hafa verið bólusett eru hvattir til að þiggja bólusetningu fyrir börn sín sem fyrst. Til að panta tíma í bólusetningu skal fólk hafa samband við heilsugæslustöðina sína.

Alla jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en hætta á alvarlegum fylgikvillum er þó fyrir hendi. Fjallað er um einkenni, smitleiðir, greiningu, meðferð, forvarnir og fylgikvilla á vef Heilsuveru

Almenn bólusetning gegn mislingum frá árinu 1976

Almennar bólusetningar gegn mislingum á Íslandi hófust árið 1976 hjá tveggja ára börnum. Því má gera ráð fyrir því að flest þau sem fædd eru eftir 1975 hafi fengið bólusetningu nema foreldrar þeirra hafi hafnað henni. Áætlað er að Íslendingar fæddir fyrir 1970 hafi langflestir fengið mislinga og þurfi því ekki á bólusetningu að halda.

Ef upp kemur smit í nánasta umhverfi fullorðinna sem fæddir eru 1970 eða síðar munu þeir aðilar sem sinna smitrakningu hafa samband og bjóða viðkomandi bólusetningu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum