Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Bætt þjónusta hins opinbera með ábyrgri notkun gervigreindar

Umræða um gervigreind og notkun tækninnar verður æ meira áberandi hér á landi og notkun opinberra aðila á tækni sem nýtir gervigreind hefur stóraukist á fáum árum. Samkvæmt Nýsköpunarvoginni, könnun fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá nóvember 2023, nýta 43% þeirra ríkisaðila sem svöruðu könnuninni gervigreind og 80% sjá möguleika til umbóta í starfsemi með notkun gervigreindar.

Gervigreindarlausnir eru öflugt tæki til nýsköpunar og eflingar þjónustu og geta skapað mikið virði fyrir hið opinbera. Á sama tíma þarf að huga að siðferðilegum og lagalegum viðmiðum þegar þær eru innleiddar.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt leiðbeiningar fyrir opinbera aðila sem nýta eða hyggjast nýta gervigreind í sinni starfsemi. Efninu er ætlað að stuðla að því að opinberir aðilar geti nýtt tækifæri gervigreindar til þess að bæta opinbera þjónustu, auka hagkvæmni hennar og skilvirkni í störfum með ábyrgum, gagnsæjum og áreiðanlegum hætti.

Opnað hefur verið vefsvæði með efni sem opinberum aðilum er rétt að líta til. Vefurinn verður í stöðugri þróun og er hægt að koma með ábendingar beint í gegnum hann.

Gervigreindartækifæri í opinberri þjónustu eru margvísleg. Meðal helstu tækifæra fyrir starfsemi hins opinbera eru:

  • Bætt þjónusta við almenning
  • Skilvirkni og lækkun kostnaðar
  • Upplýst og bætt ákvarðanataka
  • Betri málsmeðferð og eftirlit

Atriði sem líta þarf til við notkun gervigreindar svo nýta megi hana til að auka skilvirkni og gæði opinberrar þjónustu eru nokkur. Þar á meðal eru:

  •  Gæði, áreiðanleiki og heimildir til notkunar gagna
  • Umgjörð gervigreindarnotkunar
  • Eftirlit og mat á frammistöðu
  •  

Við gerð leiðbeininganna var stefna Íslands um gervigreind höfð til hliðsjónar, sem og erlend viðmið um notkun gervigreindar hjá hinu opinbera, m.a. hjá hinum Norðurlöndunum og OECD. Þá byggir efnið á samráði við aðila innanlands.

Vefur með leiðbeiningum um notkun gervigreindar


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum