Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Biðlistaátak hjá göngudeildarþjónustu BUGL skilar miklum árangri

Biðlistaátak hjá göngudeildarþjónustu BUGL skilar miklum árangri - myndStjórnarráðið

Með breyttu skipulagi og auknu fjármagni hefur tekist að stytta bið barna eftir göngudeildarþjónustu Barna- og unglingadeildar Landspítala (BUGL) verulega. Um nýliðin áramót hafði náðst það markmið að ekkert barn bíði eftir þjónustu lengur en 90 daga frá því að þjónustubeiðni er samþykkt og er það í samræmi við viðmið embættis landlæknis. Ákvörðun Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um að ráðstafa í þessu skyni 55 milljónum króna árlega í þrjú ár, hefur gert öflugu starfsfólki göngudeildarþjónustu BUGL kleift að umbreyta þjónustunni með þessum árangursríka hætti. 

Grundvallarbreyting sem getur skipt sköpum fyrir börnin

„Þetta er grundvallarbreyting til góðs“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Að tryggja börnum þessa mikilvægu þjónustu tímanlega getur skipt sköpum fyrir velferð þeirra í framtíðinni. Í lok janúar biðu 26 börn eftir þjónustu og biðin er að jafnaði innan við 1,3 mánuðir. Áður en þetta aukna fjárframlag kom til biðu jafnan um 100-130 börn á hverjum tíma eftir þjónustu og biðin var oft margir mánuðir. Ég er afar þakklátur yfir hve vel hefur tekist til og mun leggja mitt af mörkum til að tryggja að þessi góði árangur verði varanlegur.“

Í fjárlögum síðasta árs voru tryggðar rúmar 260 milljónir króna til ýmissa heilsufarslegra aðgerða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Framlagið var tímabundið til þriggja ára og nemur í heild rúmum 780 m.kr. Við ráðstöfun fjárins ákvað Willum að nýta fjármagnið til að efla þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu og efla heilsugæsluþjónustu í skólum. Við þá ákvörðun hafði hann sérstaklega að leiðarljósi ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og ályktun Alþingis um stefnu í geðheilbrigðismálum. 

Meðferðarteymum fjölgað úr tveimur í þrjú

Aukið fjármagn hefur gert BUGL kleift að ráða fleiri sérfræðinga og fjölga meðferðarteymum göngudeildarinnar úr tveimur í þrjú. Samhliða voru gerðar breytingar á verkferlum og skipulagi þjónustunnar með auknu samstarfi göngudeildar og legudeildar BUGL. Þetta hefur gefist vel og aukið þjónustugetuna til muna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum