Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólinn Múlaborg hlýtur Orðsporið 2024

Frá vinstri: Thelma B. Brynjólfsdóttir, Súsanna Gestsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Brynhildur Guðmundsdóttir, Birna G. Björnsdóttir, María Kristjánsdóttir, Kalina Klopova og Kristín Árnadóttir skólastjóri fyrir miðju, Haraldur F. Gíslason f.h. FL, Þorvar Hafsteinsson f.h. Heimilis og skóla, Ásta M. Björnsdóttir f.h. FSL, Heiða B. Hilmisdóttir f.h. SNS og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra - mynd

Dagur leikskólans er í dag, 6. febrúar. Hefðbundið er að veita Orðsporið, hvatningarverðlaun leikskólans, í tengslum við þennan ánægjulega dag.

Leikskólinn Múlaborg hlýtur Orðsporið 2024 fyrir að vera leikskóli fyrir alla, þar sem öll börn eru velkomin og þörfum þeirra er mætt. Í Múlaborg geta öll börn, með og án fötlunar, fengið að njóta þess að læra, vinna og vera saman.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, afhenti Kristínu Árnadóttur leikskólastjóra viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Múlaborg að kennurum og stjórnendum skólans viðstöddum ásamt fulltrúum Orðsporsins.

Í umsögn valnefndar um Orðsporið segir að í Múlaborg sé unnið framúrskarandi starf er kemur að jafnrétti í víðu samhengi og þróun kennsluhátta fyrir börn með fatlanir og aðrar sérþarfir. Þá taki leikskólastarf og kennsla mið af hverjum og einum einstakling, kennslurými og kennsluaðferðir eru aðlagaðar að hverju barni fyrir sig með það að leiðarljósi að börnin njóti sín, hvert á sínum forsendum.

Þá segir jafnframt að inngilding sé í heiðri höfð, allir skipti máli og enginn verði útundan. Fagleg þekking innan Múlaborgar er mikil og leikskólastarfið byggir á áralangri reynslu fagfólks á öllum sviðum er varða kennslu yngri barna, sérkennslu og aðra nauðsynlega þjálfun – og um leið sérhæfir leikskólinn sig í að sinna sameiginlegu uppeldi fatlaðra og ófatlaðra barna.

Um Múlaborg

Leikskólinn Múlaborg hefur verið starfræktur í Reykjavík frá árinu 1975. Leikskólinn leggur áherslu á jafnrétti í víðu samhengi. Jafnrétti felst meðal annars í því að jafna rétt karla og kvenna en líka í því að einstaklingar með og án fötlunar geti fengið að njóta þess að læra, vinna og vera saman.

Múlaborg er leikskóli sem vinnur að sameiginlegu uppeldi og kennslu barna með og án fötlunar. Í leikskólanum liggur fyrir margra ára reynsla og þróun á kennslu barna með fatlanir og er lögð áhersla á að þau fái að njóta barnæsku sinnar eins og önnur börn í leikskóla.

Leikskólinn Múlaborg veitir fagfólki, nemum, foreldrum og öðrum áhugasömum ráðgjöf vegna kennslu barna með fötlun. Hér er hægt að lesa meira um skólann.

Til hamingju Múlaborg!

Að Orðsporinu standa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, mennta- og barnamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli. Mikill fjöldi tilnefninga, um sextíu talsins, barst valnefnd að þessu sinni. Ber að þakka góða þátttöku.

Kennarasamband Íslands óskar kennurum, stjórnendum, starfsfólki, leikskólabörnum og öðrum velunnurum leikskólans Múlaborgar til hamingju með Orðsporið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum