Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hvað er að frétta? - Bylting í miðlun íslensku fyrir ungt fólk

Árnastofnun vinnur að þróun nýrrar vefgáttar með upplýsingum og fræðslu um íslenskt mál sem sérstaklega er hugsuð fyrir ungt fólk í efri bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum sem og fólk sem er að læra íslensku sem annað tungumál. Vinnuheiti þessa verkefnis er Íslenskugátt en ráðgert er að fyrsta útgáfa síðunnar verði opnuð í mars nk.

„Með þessu verkefni viljum við bæta aðgengi að fjársjóðum orðabóka og gagnasafna á nútímalegan hátt og gera það auðvelt, sjálfsagt og skemmtilegt fyrir alla að leita sér upplýsinga um íslenskt mál,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Gáttin mun tvinna saman gögn og upplýsingar úr fyrirliggjandi orðabókum og orðasöfnum, sem nú eru m.a. aðgengileg á vefnum Málið.is og öðrum vefsíðum á vegum Árnastofnunar. Birting gagnanna verður samræmd og einfölduð með hliðsjón af því hvernig yngri kynslóðir leita sér að upplýsingum í dag. Þá verða máltæknilausnir nýttar til þess að bæta aðgengi notenda. Hönnun síðunnar og þarfagreining var unnin af hönnunarstofunni Kolibri.

Ráðgert er að í fyrstu útgáfu gáttarinnar verði hægt að leita í þremur orðabókum, íslenskri nútímamálsorðabók, íslensk-enskri orðabók og íslenskri-pólskri orðabók, og fá upplýsingar um beygingu orða. Auk þess verður hægt að fá þýðingar milli íslensku og ensku með hjálp tauganetatækni.

Lögð er áhersla á virkt samtal og samstarf við skólasamfélagið við áframhaldandi þróun verkefnisins en gáttin er hugsuð í einingum sem auðvelt er að bæta við og þróa með hliðsjón af nýjum tæknilausnum.

Verkefni þetta er liður í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu sem nú er til umfjöllun á Alþingi. 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur þegar úti vefnum Málið.is þar sem aðgangur er að um 20 orðabókum, gagnasöfnum, íðorðabanka, beygingarlýsingu o.fl. Málið.is er mikilvægur vefur sem ætlaður er öllum sem vilja treysta málnotkun sína í ræðu og riti og fræðast um íslenskt mál. Markhópur gáttarinnar er yngri málnotendur og fullorðnir sem eru að hefja íslenskunám en gáttin mun einnig nýtast almenningi. Markmið gáttarinnar er að vera leiðbeinandi fremur en lýsandi og framsetning hennar einföld og notendavæn. Aðgerð þessi mun styðja beint og óbeint við aðrar aðgerðir áætlunarinnar.

 

Sjá einnig: Hvað er að frétta? - Aukið framboð íslenskunáms fyrir fjölbreytta hópa

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum