Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Leggja til stikukerfi um lengri gönguleiðir

Gönguhópur í Þórsmörk - myndHugi Ólafsson

Stefnumótun um gönguleiðir, skýrsla vinnuhóps um stefnumótun um gönguleiðir, tvær dagleiðir eða lengri, er nú aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.

Vinnuhópurinn hefur kynnt tillögur sínar fyrir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, en hópurinn var skipaður árið 2020 á grundvelli aðgerða í þingsályktun um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Vinnuhópnum var falið að vinna stefnumótun um lengri gönguleiðir og umgjörðina sem þeim þarf að skapa og átti hann m.a. að leggja fram stefnumótandi tillögur að umbótum á löggjöf varðandi ferðamannaleiðir, fyrirkomulag í skipulagi, formlega umsjón, erfiðleikastig og þjónustu- og öryggisstig.  

Í skýrslunni er lögð fram tillaga að kerfi viðmiða um umsjón með gönguleiðum sem eru tvær dagleiðir og lengri og umfang innviða á gönguleiðunum. Kerfistillagan hefur fengið vinnuheitið ,,Stika” og eru gönguleiðir þar flokkaðar í þrjá flokka eftir umfangi innviða á leiðinni.

Gönguleiðir sem skilgreina mætti sem Stiku I eru t.d. stikaðar, varðaðar eða merktar og vegprestar á þeim stöðum þar sem gönguleiðir greinast, en ekki er gerð krafa um skilgreinda gististaði. Upplýsingar um gönguleiðirnar eru aðgengilegar, t.d. á vefsíðu opinberra aðila, ferðafélaga eða ferðaþjónustufyrirtækja og ástandsmat fer fram vor og haust og er brugðist við niðurstöðunni með viðeigandi aðgerðum eftir þörfum.

Gönguleiðir sem falla undir Stiku II eru að auki með tjaldstæði/gistimöguleika í náttstað á flestum dagleiðum fyrir utan upphaf og enda.

Loks eru gönguleiðir sem falla undir Stiku III þessu til viðbótar með upplýsingaskilti við upphaf og endi hverrar dagleiðar, sem og skilgreint opnunartímabil.

Stiku-kerfið gerir ráð fyrir að hver gönguleið eigi skilgreindan umsjónaraðila, sem getur verið jafnt opinber eða sjálfstæður aðili. Einnig er lagt til að þar sem fleiri en einn koma til greina sem umsjónaraðili verði myndaðir samstarfshópar um umsjón og rekstur gönguleiðarinnar. Eins að stefna sé sett um þróun hverrar gönguleiðar og hvaða Stiku flokk stefnt sé að því að leiðin uppfylli. Ekki er sjálfgefið að stefnt skuli að því að allar leiðir fari í flokk Stiku III. Innviðir verði lágstemmdir og umhverfisvænir og þess gætt að þeir falli vel inn í umhverfið og upplýsingar um gönguleiðir gerðar aðgengilegar almenningi, ásamt því að öryggi og vernd náttúru- og menningarminja verði bætt.

Vinnuhópurinn var skipaður fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu, Skógræktinni, Landgræðslunni, Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ferðafélags Íslands og Markaðsstofum landshluta.

Stefnumótun um gönguleiðir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum