Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2024 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur staðfest reglugerð um merki fasteigna sem sett er á grundvelli laga nr. 74/2022 um breytingu á lögum um skráningu, merki og mat fasteigna nr. 6/2001 og tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.

Í reglugerðinni er í fyrsta lagi fjallað um skyldu eigenda fasteigna til þess að láta gera merki um fasteignir sínar. Í því felst að liggi ekki fyrir þinglýst og glögg merki eða skýr afmörkun í samræmi við gildandi lög er afmörkun fór fram þá beri eigendum að gera merkjalýsingu um fasteignir sínar. Þá ber eigendum að viðhalda merkjum fasteigna sinna og láta gera nýja merkjalýsingu í hvert sinn sem ný fasteign er stofnuð eða þegar breytingar verða á merkjum fasteignar s.s. með uppskiptingu eða þegar hún er sameinuð annarri.

Í öðru lagi er í reglugerðinni fjallað um merkjalýsingar, tilgang þeirra, efni og hvernig þær skulu útbúnar. Þá kemur fram á hvaða gögnum þær skulu byggja og hvernig þær skulu samþykktar. Þá er einnig fjallað um hvernig skuli skrá stærð fasteigna á grundvelli merkjalýsinga, sérstaklega með tilliti til þess þegar eignir eiga land að vatni eða sjó eða þegar fasteign fylgir eignarhlutdeild í óskiptu landi. Er þar einnig fjallað um mælingar landa og lóða og hvaða kröfur merki þurfi að uppfylla til þess að teljast glögg í skilningi laganna.

Í þriðja lagi er fjallað um merkjalýsendur en samkvæmt lögunum mega þeir einir gera merkjalýsingar sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra og staðist próf. Í reglugerðinni er nánar fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til merkjalýsenda, námskeiðahald, útgáfu leyfis og afturköllun þess. Þá er fjallað um hlutverk merkjalýsenda og þóknun þeirra. 

Að lokum er að finna ákvæði til bráðabirgða um tímabundna  heimild þeirra sem hafa starfað við stofnun og skráningu fasteigna og þeirra sem hafa starfað við að gera landamerkjalýsingar til þess að gera merkjalýsingar þar til þeir hafa sótt námskeið og fengið útgefið leyfi ráðherra sem merkjalýsendur samkvæmt reglugerðinni. Sækja þarf um bráðabirgðaleyfi fyrir 15. mars 2024. Bráðabirgðaleyfi gildir þar til leyfishafi hefur sótt námskeið og fengið útgefið leyfi, en þó ekki lengur en til 1. júní 2025.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum