Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Stefna mótuð í húsnæðismálum endurhæfingarþjónustu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að móta heildstæða stefnu í húsnæðismálum endurhæfingarþjónustu. Liður í þeirri vinnu verður að skoða leiðir til að fjármagna viðhald húsnæðis þar sem endurhæfing er veitt.

„Það þarf að vera skýrt hver ber ábyrgð á endurbótum og viðhaldi húsnæðis fyrir endurhæfingarþjónustu og hvernig fjármögnuninni er háttað. Það er allra hagur að skýrar reglur gildi um endurbætur og reglubundið viðhald húsnæðis fyrir þessa mikilvægu þjónustu þannig að það þjóni sem best þörfum notenda“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Í gildandi þjónustusamningum Sjúkratrygginga Íslands við veitendur endurhæfingarþjónustu er ekki gert ráð fyrir leigu- eða viðhaldskostnaði húsnæðisins. Undanfarið hafa verið gerðar breytingar á almennri fasteignaumsýslu ríkisins. Áhersla hefur verið lögð á að aðgreina umsýslu fasteigna frá rekstraraðila og er þá leiga greidd fyrir afnot af húsnæðinu. Þetta er gert til að tryggja faglega, örugga og hagkvæma umsýslu ríkiseigna, fjárhagslegt gagnsæi við fasteignareksturinn og samræmt utanumhald vegna viðhalds og endurbóta húsnæðis. 

Skipan hópsins

  • Angela G. Eggertsdóttir, heilbrigðisráðuneyti, formaður
  • Sigurjón Norberg Kjærnested, tilnefndur af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
  • Júlíana H. Aspelund, tilnefnd af Sjúkratryggingum Íslands
  • Hrafn Hlynsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Selma Margrét Reynisdóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti. Starfsmaður hópsins er Hrafnhildur Ýr Erlendsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

Starfshópurinn getur kallað til sín aðra sérfræðinga og haghafa eftir þörfum. Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum fyrir 1. nóvember 2024. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum