Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Greiðsluþátttaka vegna brottnáms brjóstapúða af læknisfræðilegum ástæðum

Sjúkratryggingum er nú heimilt að veita greiðsluþátttöku í aðgerðum til að fjarlægja brjóstapúða sem komið hefur verið fyrir í fegrunarskyni, teljist það nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð þessa efnis og tók hún gildi 1. desember síðastliðinn.

Hingað til hefur greiðsluþátttaka í aðgerðum vegna brottnáms brjóstapúða (breast implants) einskorðast við að þeim hafi verið komið fyrir af læknisfræðilegum ástæðum, t.d. vegna enduruppbyggingar brjósts í kjölfar krabbameinsmeðferðar.

Þess eru dæmi að konur sem hafa fengið ígrædda brjóstapúða í fegrunarskyni hafi í kjölfarið fundið fyrir alvarlegum veikindum sem rekja má til púðanna. Til að fá þá fjarlægða hafa þær þurft að greiða kostnað vegna slíkrar aðgerðar að fullu. Aðgerðirnar eru kostnaðarsamar sem hefur valdið því að í einhverjum tilvikum hafa konur þurft að fresta eða jafnvel hætta við aðgerð þannig að veikindin hafa orðið viðvarandi og jafnvel versnað. Með ákvörðun ráðherra er brugðist við þessu.

Reglugerðin sem nú hefur verið sett nr. 1266/2023 felur í sér breytingu á fylgiskjali reglugerðar nr. 722/2009 um lýtalækningar sem sjúkratryggingar almannatrygginga taka til. Með breytingunni er kveðið á um að greiðsluþátttaka sé veitt vegna brottnáms brjóstapúða ef slík aðgerð er talin nauðsynleg af læknisfræðilegum ástæðum. Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku eru eftirfarandi:

a) Ef til staðar er sýking í vasa sem geymir brjóstapúða.

b) Ef til staðar er krónísk bólga umhverfis brjóstapúða.

c) Ef staðfest er rof á brjóstapúða sem leitt hefur til leka úr púðanum og út fyrir þá bandvefshimnu (extracapsular) sem myndast utan um brjóstapúðann. Á þannig ekki við þegar rof á brjóstapúða uppgötvast í aðgerð þegar opnað er inn fyrir bandvefshimnuna(intracapsular).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum