Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar NATO ræddu aukinn varnarviðbúnað og stuðning við Úkraínu

Aukinn varnarviðbúnaður, framlög til varnarmála og þéttara samstarf við Úkraínu voru á meðal umræðuefna á varnarmálaráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel í dag. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sótti fundinn. 

Í ljósi gjörbreytts öryggisumhverfis í kjölfar innrásarstríðs Rússa í Úkraínu hefur markvisst verið unnið að því efla varnarviðbúnað og fælingarmátt bandalagsins og ræddu ráðherrarnir framvindu þeirrar vinnu sem og mikilvægi þess að standa við skuldbindingar um að auka enn frekar framlög til varnarmála. Ráðherrarnir ræddu einnig útfærslu á nýjum varnaráætlunum og ákvarðanir um eflingu liðsafla og viðbragðsgetu, birgðahalds og flutninga til að styðja við framkvæmd þeirra. Sömuleiðis var rætt um aukið samstarf og langtímaáætlanir um fjárfestingar og samstarf við hergagnaframleiðendur til að mæta vaxandi þörf fyrir hergögn og tækni til að tryggja birgðir bandalagsríkja og áframhaldandi aðstoð við Úkraínu.  

„Bandalagið hefur tekið hraðfara breytingum til að mæta nýjum og alvarlegum öryggisáskorunum sem birtast í nýjum varnaráætlunum, skilvirkara stjórnkerfi, víðtækara eftirliti og auknum varnar- og fælingarmætti. Rík samstaða er um þessar áherslur og öll ríkin vinna að sama marki. Við höfum á síðustu árum eflt stuðning við eftirlit og aðgerðir á Norður-Atlantshafi sem skipta máli fyrir öryggi og varnir Norður-Ameríku og Evrópu en líkt og aðrar bandalagsþjóðir þurfum við að leggja meira af mörkum,“ segir Bjarni.  

Ráðherrarnir komu einnig saman til fundar í NATO-Úkraínuráðinu þar sem Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu gerði grein fyrir stöðunni á vígvellinum, auk þess sem rætt var um stuðning bandalagsins og bandalagsríkja við Úkraínu. Á fundinum var einnig farið yfir innleiðingu og fjármögnun langtíma stuðningsáætlunar bandalagsins fyrir Úkraínu og samþykktu ráðherrar að setja á fót sameiginlega greiningar- og þjálfunarmiðstöð NATO og Úkraínu sem verður staðsett  í Póllandi.

  • Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagisins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum