Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland og Bandaríkin hefja samstarf á sviði orku- og loftslagsmála

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna - myndLjósmynd/Eyþór Árnason

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jennifer M. Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, ýttu í dag í Hörpu úr vör nýju samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á sviði orku- og loftslagsmála.

Til stendur að samstarf ríkjanna verði á sviði jarðhita, upptöku og geymslu/nýtingar koldíoxíðs og framleiðslu og nýtingu vetnis. Markmið samstarfsins er meðal annars að liðka fyrir samstarfi ýmissa hagsmunaaðila, í viðleitni beggja ríkja til að:

  • Ná loftslagsmarkmiðum sínum
  • Hraða samdrætti kolefnislosunar
  • Þróa nýstárlegar leiðir til að virkja endurnýjanlega orku
  • Efla orkuöryggi  
  • Vinna að samvinnuverkefnum með öðrum ríkjum til að hraða orkuskiptum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jennifer M. Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, áttu tvíhliða fund í Hörpu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Samstarfið sem við erum að hefja hér í dag markar tímamót. Íslenskar lausnir geta skipt máli á heimsvísu og því  er engin tilviljun að Bandaríkin velja Ísland sem samstarfsaðila í orku- og loftslagsmálum. Ísland er alþjóðlegur orku- og loftslagsleiðtogi og íslensk fyrirtæki eru í fararbroddi í heiminum þegar kemur að loftslagslausnum á borð við kolefnisföngun. Bandarísk stjórnvöld hafa lagt stóraukna áherslu og fjármagn í loftslags- og hreinorkulausnir og samstarfið sem ýtt var úr vör í dag staðfestir það sem við vitum, að íslenskar lausnir og hugvit geta skipt máli á heimsvísu.“

Jennifer M. Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna: „Við erum himinlifandi yfir að vera að hefja samstarf Bandaríkjanna og Íslands í orku- og loftslagsmálum. Á sama tíma og við vinnum með alþjóðlegum samstarfsaðilum okkar að því að hraða grænum orkuskiptum til að auka orkuöryggi hefur Ísland þegar náð svo miklum árangri. Framtíðina í orkumálum heimsins er þegar að finna á Íslandi og við hlökkum til að samstarfsins með Guðlaugi Þór og teymi hans að því að efla og skala upp þessar orku- og loftslagslausnir.“

Samstarf ríkjanna felur í sér að ríkin stefna á að greiða götu fyrirtækja, háskóla og rannsóknarstofnana, frumkvöðla og annarra sem vinna að endurnýjanlegri orku og lausunum á sviði loftslagsmála.

Benedikt Kristján Magnússon deildarstjóri framleiðslu hjá ON, Sævar Freyr Þráinsson forstjóri OR, Edda Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jennifer Granholm orkumálaráðherra Bandaríkjanna, Hera Grímsdóttir framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá OR og Helga Kristín Jóhannsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri Jarðhitagarðs ON.

Mikill áhugi er hjá erlendum ríkjum og aðilum á samstarfi við Ísland á sviði hreinorku- og loftslagsmála. Bandarísk yfirvöld, þar á meðal Granholm, hafa sýnt orkumálum Íslands mikinn áhuga, en Bandaríkin hafa undanfarin ár lagt stóraukna áherslu á hreinorkuvæðingu m.a. með samþykkt lagafrumvarpa sem veita miklum fjármunum til verkefna á því sviði.

Samstarf ríkjanna hófst í dag með umræðuvettvangi um orku- og loftslagsmál ríkjanna þar sem drög voru lögð varðandi möguleg samstarfsverkefni og er þar m.a. horft til samstarfs varðandi tilraunaverkefni, rannsóknir og tækniþróun. Fulltrúar íslenskra og bandaríska stjórnvalda tóku þátt í fundinum, en stefnt er á að halda sambærilega fundi annað hvert ár.

Samstarf ríkjanna hófst í dag með umræðuvettvangi um orku- og loftslagsmál ríkjanna, sem í tóku þátt fulltrúar íslenskra og bandaríska stjórnvalda.

Guðlaugur Þór og Granholm áttu auk þess tvíhliða fund í Hörpu í dag og þá heimsóttu ráðherrarnir Hellisheiðavirkjun, þar sem Granholm kynnti sér íslenskt hugvit við nýtingu jarðhita, kolefnisstjórnun og föngun og leiðir við framleiðslu á nýstárlegu eldsneyti.

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum