Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greining á aðkomu einkaaðila að uppbyggingu innviða við Jökulsárlón

Jökulsárlón - myndHugi Ólafsson

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og fjármála-og efnahagsráðuneytið hafa í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð látið framkvæma greiningu á mögulegri aðkomu einkaaðila að uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í þágu náttúruverndar og ferðamennsku við Jökulsárlón.

Greiningin var unnin af Deloitte og eru í skýrslunni settar fram fjórar sviðsmyndir þar sem gert er ráð fyrir mismikilli aðkomu ríkis og einkaaðila að verkefninu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Uppbygging aðstöðu við Jökulsárlón er orðin mjög brýn vegna þess mikla fjölda ferðamanna sem sækir staðinn allt árið um kring. Ég fagna útkomu skýrslunnar, en í henni eru settar fram mjög skýrar sviðsmyndir um hvaða leiðir hægt er að fara við fjármögnun og uppbyggingu við náttúruperluna til framtíðar. Miklu skiptir að sú leið sem farin verður verði Jökulsárlóni til heilla og styðji við uppbyggingu ferðamennsku og ferðatengdrar atvinnustarfsemi á svæðinu öllu.    

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra: Jökulsárlón er vinsæll viðkomustaður ferðamanna á Íslandi. Ríkið ákvað að kaupa hluta af landinu við lónið á sínum tíma. Það er löngu orðið tímabært að ráðist sé í uppbyggingu á innviðum svæðisins. Fyrirliggjandi greining sýnir að möguleikar svæðisins séu það miklir að vel sé hægt að ráðast í slíka fjárfestingu með sérleyfisfyrirkomulaginu þannig að áhætta af framkvæmdum og rekstri sé ekki á ábyrgð skattgreiðenda. Mikilvægt er að við nýtum okkar slíkar leiðir við fjárfestingar hér á landi í auknum mæli.“

Árið 2019 var nýtt deiliskipulag samþykkt vegna breyttra forsendna sem snúa að Jökulsárlóni. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir uppbyggingu á allt að 5.130 fermetra aðstöðu á svæðinu. Gert er ráð fyrir að stærstur hluti aðstöðunnar verði uppbygging á aðstöðu fyrir veitingar, verslun, afþreyingu, ásamt útleigurýmum fyrir rekstraraðila ferðaþjónustu.

Jökulsárlón er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Á árinu 2018 voru heimsóknir 838 þúsund og 817 þúsund á árinu 2019. Áætlanir gera ráð fyrir að heimsóknarfjöldi verði tæplega 1,0 milljón á árinu 2023. Jökulsárlón er hluti af jörðinni Fell sem íslenska ríkið keypti árið 2017 en sama ár sameinaðist svæðið Vatnajökulsþjóðgarði og var svæðið þar með friðlýst.

Jökulsárlón - Greining á mögulegri aðkomu einkaaðila að uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í þágu náttúruverndar og ferðamennsku við Jökulsárlón

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum