Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að frumvarpi um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

Í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki kemur fram að ætlunin sé að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf. þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur efnt til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi um ráðstöfun eftirstandandi eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. Samkvæmt drögunum er ráðherra heimilað, að fenginni heimild Alþingis í fjárlögum, að ráðstafa þeim eignarhlut sem ríkissjóður á í Íslandsbanka. Heimild í fjárlögum 2024 liggur þegar fyrir.

Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir ráðstöfun með markaðssettu útboði, einu eða fleirum. Þannig gæfist almenningi kostur á að taka þátt í útboðinu og kveða drögin á um að sala til einstaklinga hafi forgang.

Með sölu eignarhlutarins er unnt að lækka skuldir og vaxtabyrði ríkissjóðs sem ella þarf að fjármagna rekstur sinn með öðrum og kostnaðarsömum hætti. Ríkissjóður er sem stendur með um 9% af vergri landsframleiðslu bundna í eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Sala á eftirstandandi eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka er til þess fallin að draga úr áhættu sem fylgir slíkum eignarhlut. Það er talið skynsamlegt bæði þar sem ríkissjóður er þegar með talsverða áhættu af slíku eignarhaldi í gegnum eign sína í Landsbankanum en einnig er talið óheppilegt að ríkissjóður sé, í gegnum eignarhald í fjármálafyrirtækjum, stór aðili á samkeppnismarkaði.

Ef frumvarpsdrögin verða lögð fram á Alþingi og samþykkt munu gildandi lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum falla á brott.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum