Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Ný aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis

Starfshópur um sýklalyfjaónæmi og aðgerðir til að sporna við útbreiðslu þess - mynd

Þverfaglegur starfshópur skipaður af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í samvinnu við matvæla- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, leggur til að ráðist verði í víðtækar aðgerðir hér á landi til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Útbreiðsla þeirra er enn sem komið er minni hér á landi en í mörgum öðrum löndum en hefur aukist á undanförnum árum. Mikilvægt er að Ísland haldi góðri stöðu sinni til að tryggja öryggi sjúklinga, standa vörð um starfsemi heilbrigðis- og umönnunarstofnana og sporna við auknum kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur sýklalyfjaónæmis.

Í starfshópnum sátu Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, Anna Margrét Halldórsdóttir, tilnefnd af sóttvarnalækni, Hólmfríður Þorsteinsdóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun, Jón Steinar Jónsson, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Karl Gústaf Kristinsson, tilnefndur af Landspítala, Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, tilnefnd af Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum, Vigdís Tryggvadóttir, tilnefnd af Matvælastofnun og Guðlín Steinsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu sem jafnframt var starfsmaður hópsins.

„Það er ómetanlegt að hafa fengið þessa vönduðu aðgerðaáætlun í hendur sem unnin er af breiðum hópi færra sérfræðinga undir forystu Þórólfs Guðnasonar fv. sóttvarnalæknis. Þarna eru skýrar tillögur og markmið með kostnaðargreindum verkefnum og skilgreindum ábyrgðaraðilum. Ónæmar bakteríur þekkja ekki landamæri og því er þetta mikilvægt mál sem er nauðsynlegt að bregðast við.“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Ég legg mikla áherslu á að aðgerðaáætluninni verði hrint í framkvæmd sem fyrst til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar sýklalyfjaónæmis hér á landi. Aðgerðaáætlunin er byggð á sterkum vísindalegum grunni og nálgast viðfangsefnið út frá víðu sjónarhorni. Það er mikilvægt svo við náum árangri,” segir Katrín Jakobsdóttir sem gegnir embætti matvælaráðherra nú um stundir. 

Verulegt og vaxandi heilbrigðisvandamál

Sýklalyfjaónæmi hefur farið vaxandi í heiminum á undanförnum árum og er orðið verulegt heilbrigðisvandamál. Í sumum löndum greinast sýkingar af völdum baktería sem engin sýklalyf vinna á sem skapar ástand sem minnir á aðstæður eins og þær voru áður en sýklalyfin voru fundin upp.  Aukið ónæmi baktería fyrir sýklalyfjum takmarkar meðferðarúrræði, eykur sjúkdómsbyrði, dánartíðni og fylgikvilla með sjúkdómum og leiðir til aukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu. 

Aðgerðir í anda ,,Einnar heilsu“ (e. One Health)

Alþjóðlegar stofnanir hafa undanfarið bent á hættuna af völdum sýklalyfjaónæmra baktería og hvatt til aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu þeirra áður en það verður of seint. Áhersla er lögð á að þjóðir setji sér aðgerðaáætlanir í þessu skyni og byggi á nálgun „Einnar heilsu“ sem felur í sér að aðgerðirnar þurfa að beinast að mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi þar sem rætur vandans liggja.

Starfshópurinn leggur til fimm meginaðgerðir sem hver um sig hefur tilgreind markmið. Þetta eru aðgerðir sem stuðla að markvissri og skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Þungamiðja áætlunarinnar felur í sér verkefni sem miða að því að minnka og bæta notkun sýklalyfja, auka hreinlæti og koma í veg fyrir sýkingar með öðrum ráðum eins og bólusetningum. Til þess þarf að upplýsa og fræða almenning og heilbrigðisstéttir, starfsfólk í velferðarþjónustu, dýralækna og matvælaframleiðendur um mikilvægi skynsamlegrar sýklalyfjanotkunar og mikilvægi sóttvarna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum