Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra styrkir frumkvöðlaverkefni um niðurtröppun ópíóíða

Frá undirritun samnings um tilraunaverkefnið - mynd

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að styrkja tilraunaverkefni um nýja þjónustu við einstaklinga sem taka sterk verkjalyf eða svefn- og róandi lyf að staðaldri og vilja aðstoð til að hætta eða draga úr notkun þeirra. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda til að sporna við skaða af völdum ópíóíðafíknar. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilsugæslan Urðarhvarfi og Reykjanesapótek standa saman að verkefninu í samstarfi við sprotafyrirtækið Prescriby sem hefur þróað hugbúnaðinn sem verkefnið byggir á. Læknar og lyfjafræðingar munu sinna þjónustunni sem felst í persónusniðinni meðferðaráætlun fyrir þá einstaklinga sem munu nýta sér hana, fræðslu og eftirfylgd. 

Íslenskt hugvit sem skapar persónusniðna meðferðaráætlun

Tilraunaverkefnið er til sex mánaða og áætlað að hægt verði að veita að lágmarki 300 einstaklingum þessa þjónustu á tímabilinu. Móttökur verða á þremur starfsstöðum, hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilsugæslunni Urðarhvarfi og í Reykjanesapóteki og þjónustan veitt á grundvelli tilvísana.

Við upphaf meðferðar er tekið greiningarviðtal við hlutaðeigandi einstakling og útbúin persónusniðin meðferðaráætlun sem tekur mið af notkun hans á þeim lyfjum sem til stendur að trappa niður og áætlun um hvernig það verður gert. Áætlunin er skráð í smáforrit sem einstaklingurinn hefur aðgengi að í símanum sínum auk fræðslu og stuðnings. Forritið gerir meðferðaraðila kleift að fylgjast með meðferðarheldni skjólstæðings og bregðast við eftir þörfum.

Markmið að þjónustan verði aðgengileg um allt land

Prescriby er íslenskt sprotafyrirtæki sem var upprunalega stofnað af læknum og forriturum til að tryggja öruggari meðferðir með sterkum verkjalyfjum, róandi og svefnlyfjum. Heilbrigðisráðherra segir þetta frumkvöðlaverkefni einstakt og hafa þegar vakið athygli út fyrir landsteinanna. „Það er ánægjulegt að sjá veitendur heilsugæsluþjónustu, apótek og hugbúnaðarfyrirtækið taka höndum saman um að þróa þessa mikilvægu þjónustu. Hér er um að ræða íslenskt hugvit og nýsköpun sem leiðir kerfið saman fyrir einstaklinginn. Langvarandi notkun sterkra, ávanabindandi lyfja eins og ópíóíða skerðir lífsgæði fólks og er skaðleg. Ef vel tekst til sé ég fyrir mér að þessi þjónusta verði útvíkkuð og gerð aðgengileg í apótekum og heilsugæslu sem víðast um landið. Þannig getum við tryggt öllum sem þurfa aðgang að þjónustunni, óháð búsetu.“ Segir Willum Þór Þórsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum