Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Innviðaráðuneytið

Rafvæðing flugs og möguleikar rafflugs á Norðurlöndunum

Árni Freyr Stefánsson skrifstofustjóri samgangna, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður ráðherra og Friðfinnur Skaftason verkfræðingur á skrifstofu samgangna sátu fundinn fyrir Íslands hönd. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók þátt í óformlegum ráðherrafundi samgönguráðherra Norðurlandanna í gær þar sem rætt var um rafvæðingu flugs og möguleika rafflugs á Norðurlöndunum.

Meðal þátttakenda voru Andreas Carlson innviðaráðherra Svíþjóðar, Jon Ivar Nygård samgönguráðherra Noregs, Lulu Ranne samgöngu- og fjarskiptaráðherra Finnlands og Thomas Danielsen samgönguráðherra Danmerkur.

Á fundinum var farið yfir hvernig efla megi rafflug í atvinnuskyni fyrir árið 2030 ásamt því að rætt var um aðgerðir sem grípa má til á norrænum vettvangi til að ýta enn frekar undir framfarir í rafflugi.

Sigurður Ingi Jóhannsson lagði til að Norðurlöndin ynnu saman að því að fjarlægja þær hindranir sem staðið geta í vegi fyrir rafvæðingu flugs. Norðurlöndin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta og mikilvægt í því samhengi að þau skoði aflgjafa og stöðlun hleðslumannvirkja, en sú vinna er þegar farin af stað. „Aðgangur að stöðluðum hleðslumannvirkjum á flugvöllum er nauðsynlegur ef rafflug á að vera hagkvæmt og geta þróast. Rafvæðing flugs mun hafa jákvæð umhverfisáhrif og skapa ný tækifæri í flugþjónustu. Því er mikilvægt að Norðurlöndin vinni saman að því að móta sér skýra stefnu í þessum málum og tryggi nauðsynlegar aðgerðir sem munu greiða fyrir rafvæðingu flugs“, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum