Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2024 Innviðaráðuneytið

Uppbygging húsnæðis á Reykjanesi

Í byrjun árs skipaði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, framkvæmdahóp með fulltrúum innviðaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að fylgja eftir tillögum fyrri starfshóps, um möguleika á hraðri uppbyggingu húsnæðis vegna afleiðinga náttúruhamfara við Grindavík, og vinna að framgangi tillagna hans og fjármögnun þeirra.

Starf framkvæmdahópsins beindist einkum að því að fá yfirsýn yfir framboð lóða fyrir húsnæðisuppbyggingu í sveitarfélögunum Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum, stöðu uppbyggingar og áform fyrrgreindra sveitarfélaga um uppbyggingu á næstu misserum.

Á grundvelli þessarar vinnu liggur nú fyrir að hægt er að byggja um 350 íbúðir á um 10-12 mánaða tímabili frá því að framkvæmdir hefjast. Þessi uppbygging er í samræmi við samþykkt deiliskipulög og uppbyggingu innviða á umræddum svæðum sem er langt á veg komin eða lokið.

Uppbyggingin fer fram á forsendum sveitarfélaganna og þar með er þeim og markaðnum gefinn kostur á að skipuleggja uppbyggingu og framkvæmdir á eigin forsendum þar sem Grindvíkingum sem og öðrum landsmönnum gefst færi á að velja sér búsetu og búsetuúrræði við hæfi.

Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög taki höndum saman til að hraða framboði á nýju íbúðarhúsnæði sem mætt getur aukinni eftirspurn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum