Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Úthlutað í fyrsta sinn úr nýjum Tónlistarsjóði

Ráðherra ásamt fulltrúum þeirra verkefna sem fengu langtímasamning fyrir innviðaverkefni og Guðmundur Birgir Halldórsson fulltrúi úthlutunarnefndar    - mynd

Merkisáfangi raungerðist síðastliðinn föstudag þegar úthlutað var í fyrsta sinn úr nýjum Tónlistarsjóði. Athöfnin fór fram í hinni nýju Tónlistarmiðstöð sem rétt eins og Tónlistarsjóður byggir á tónlistarstefnu til ársins 2030 og heildstæðri löggjöf um tónlist sem samþykkt var á Alþingi í fyrra.

Hlutverk Tónlistarsjóðs er m.a. að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn skal einnig stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis.

Sjóðnum er skipt í fjórar deildir sem allar hafa ólíkar áherslur og er ætlað að útvíkka úthlutanir til verkefna sem styrkja tónlistargeirann á sem breiðustum grunni.
Samhliða úthlutuninni undirritaði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og María Rut Reynisdóttir framkvæmdarstjóri Tónlistarmiðstöðvar undir samning ráðuneytisins við miðstöðina.

„Okkur hefur tekist að stórefla umgjörð um tónlistarlífið í landinu í samræmi við skýra framtíðarsýn þar um. Það er ánægjulegt að sjá hina Tónlistarmiðstöð taka til starfa og úthluta í fyrsta sinn úr nýjum og öflugri Tónlistarsjóð. Við eigum fjöldann allan af framúrskarandi tónlistarmönnum sem láta til sín taka hérlendis sem og erlendis. Öll þessi vinna er tileinkuð þeim,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

72,2 milljónum króna úthlutað úr tveimur deildum

Að þessu sinni var samtals úthlutað 72,2 m.kr. til verkefna sem falla undir tvær deildir skv. reglum um Tónlistarsjóð, annars vegar Lifandi flutning sem styður við til tónleikahald innanlands og markaðssetningu á tónleikahaldi innanlands. Hins vegar Þróun og innviðir sem styður við tónlistarhátíðir og tónleikastaði. Veittir eru bæði stakir verkefnastyrkir og langtímasamningar til tveggja eða þriggja ára.

Úthlutun var með eftirfarandi hætti:

Úthlutun undir innviðum og þróun:

Á sviði innviða er alls úthlutað 34,7 m.kr. til 33 verkefna. Þar af eru gerðir samningar við fimm styrkhafa. Umsóknir í þessum flokki voru 77 og sótt var um ríflega 326 milljónir.
Í sígildri og samtímatónlist eru styrkt 23 verkefni, þrjú verkefni í jazz og blústónlist og sex verkefni falla undir tónlistarverkefni af öðrum toga. Úthlutun er í samræmi við þær umsóknir sem bárust sem voru flestar úr geira sígildrar og samtímatónlistar. Hæstu styrki að upphæð 4 milljónir króna hljóta Óperudagar og Sumartónleikar í Skálholti. Þá hlaut Jazzhátíð Reykjavíkur 3,5 milljónir skv. gildandi samning.

Samningar til þriggja ára:
Pera óperukollektív/Óperudagar, 4 m.kr.
Andlag / Sönghátíð í Hafnarborg, 2 m.kr.
Sigurður Bjarki Gunnarsson/Reykholtshátíð, 1 m.kr.
Magnaðir ehf/Bræðslan tónlistarhátíð, 1,5 m.kr.

Samningur til tveggja ára:
Sumartónleikar í Skálholti, 4 m.kr.

Úthlutun undir lifandi flutning:

Til lifandi flutnings eru veittar 37,5 milljónir króna til 46 verkefna. Umsóknir til lifandi flutnings voru 113 og sótt var um rúmlega 219 milljónir. Í sígildri og samtímatónlist eru styrkt 31 verkefni, sjö verkefni í jazz og popptónlist og  verkefni falla undir tónlistarverkefni af öðrum toga. Úthlutun er í samræmi við þær umsóknir sem bárust sem voru flestar úr geira sígildrar og samtímatónlistar. Hæstu samningsbundna styrki fá Nýi Músíkhópurinn 6 m.kr. og Kammersveit Reykjavíkur, 5 m.kr. Fimm verkefni eru styrkt um 1 m.kr. hvert: Cameractica, Barokkbandið Brák, Heimskautagerðið á Raufarhöfn, Kammerkórinn Cantoque, Salurinn/Kópavogsbæ. Þá hlaut kammerhópurinn Nordic Affect 2,5 m.kr. skv gildandi samning.

Þrír styrkhafar fengu samninga til tveggja og þriggja ára.

Samningar til þriggja ára:
Nýi músíkhópurinn fær 6 m.kr.
Kammersveit Reykjavíkur fær 5 m.kr.

Samningur til tveggja ára
Bambaló fyrir verkefnið Cauda Collective 1 m.kr.

Hér að neðan má sjá nánári yfirlit á styrkt verkefni:

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum