Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Stefnumótunar- og greiningarvinna í málefnum sýslumanna

Ráðherra í heimsókn hjá sýslumanninum á Austurlandi.  - mynd

Dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, hefur sett af stað umfangsmikið verkefni við greiningu á starfsemi sýslumannsembætta landsins og mótun framtíðarstefnu fyrir málaflokkinn.

Á sýslumannadeginum í september 2023 kynnti dómsmálaráðherra fyrir sýslumönnum og starfsfólki þeirra áherslur sínar, sem felast fyrst og fremst í áframhaldandi stefnumótunar- og greiningarvinnu til að móta framtíðarsýn. Í áformum ráðherra felst að byggt verði á stefnumótunarvinnu undanfarinna ára sem miðar að því að bæta þjónustuna við almenning, stuðla að hagkvæmari rekstri og styrkja starfsemi embætta á landsbyggðinni og hlutverk þeirra sem miðstöðvar ríkisins í héraði. Þá kynnti ráðherra að vinnan sem er fram undan þyrfti jafnframt að samræmast gildandi stefnum og áherslum sem tengjast málefnum sýslumanna. Nefndi hún þar aðallega þrennt; stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 (Aðgerð A.8. Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði í þingsályktun nr. 27/152), skýrsluna „Sýslumenn – framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri“, sem dómsmálaráðuneytið gaf út í mars 2021 og ríkisstjórnarsáttmálann, ásamt gildandi fjármálaáætlun.

Á fundi með sýslumönnum í nóvember 2023 fór ráðherra nánar yfir framangreind áform sín og áréttaði vilja sinn um að verkið yrði unnið í nánu samráði og samvinnu milli ráðuneytisins og sýslumanna og annarra haghafa sem málefnið varðar. Vinnunni er ætlað að skila greiningu utanaðkomandi sérfræðinga á stöðumati og valkostum, þar sem lykilviðfangsefnin verða skilgreind og ólíkar leiðir að markmiðum kortlögð, ásamt því að birta drög að nánar útfærðri framtíðarsýn.

 

Sérfræðingar og stýrihópur

Til að stuðla að sem bestum árangri við stefnumótunar- og greiningarvinnuna, hefur ráðuneytið fengið KPMG til að leiða vinnuna. Að auki hefur ráðuneytið skipað stýrihóp sem er myndaður af fulltrúum nokkurra af helstu haghöfum til að vinna náið með ráðgjöfum KPMG. Stýrihópurinn mun meðal annars hafa það hlutverk að tryggja samræmda sýn og framgöngu verkefnisins, miðla upplýsingum á milli helstu haghafa, leysa úr álitamálum sem upp kunna að koma og vinna greiningu á stöðumati og valkostum ásamt ráðgjöfum. KPMG hefur þegar hafist handa við greiningar og viðtöl og er stefnt að verklokum ráðgjafa sumarið 2024.  

Stefnumótunar- og greiningarvinnan sem nú fer í hönd er mikilvægur liður í framkvæmd aðgerðar A.8. Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 og þjónar því markmiði að efla opinbera þjónustu í héraði, fjölga atvinnutækifærum og bæta ríkisreksturinn. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum