Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ávarpar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. - mynd

Ráðherravika 55. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna stendur nú sem hæst í Genf. Aðalframkvæmdastjóri og mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna ávörpuðu ráðið við upphaf lotunnar í vikunni, en Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra flutti ræðu Íslands í gegnum fjarfundarbúnað í gær. 

Mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi allra einstaklinga og efla samstöðu um lýðræði og frelsi bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra. Í ræðunni fór ráðherra sömuleiðis yfir þá alvarlegu stöðu sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir vegna innrásarstíðs Rússlands í Úkraínu og skelfilegra átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.  

Auk þessa lýsti ráðherra yfir áhyggjum af rísandi umræðuskautun og aukinni afturför á stöðu mannréttinda víða um heim. „Við verðum að vinna saman og berjast gegn alvarlegri afturför mannréttinda sem við höfum undanfarið orðið vitni að og tryggja mannréttindi allra, óháð kynþætti, trúarbrögðum, lífsskoðunum, fötlun, kynhneigð og kynvitund,” sagði ráðherra.  

Í ræðunni fór ráðherra jafnframt yfir áherslur Íslands í framboði til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025 til 2027 en kosningar fara fram í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust.

„Auk þess að leggja kapp á að efla samstöðu um grundvallargildi mannréttinda sem eiga víða undir högg að sækja hyggjumst við leggja sérstaka áherslu á kynjajafnrétti, réttindi barna og ungmenna, hinsegin réttindi og umhverfismál, náum við kjöri til setu í mannréttindaráðinu,“ sagði Bjarni. 

Anna Jóhannsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, tók þátt í opnun ráðherravikunnar fyrir hönd Íslands. Hún sótti meðal annars sérstakan viðburð á vegum Úkraínu í tilefni þess að tvö ár eru liðin frá innrás Rússlands í Úkraínu, sem og viðburð Palestínu vegna áhrifa átakanna í Gaza á stöðu mannréttinda þar í landi.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum