Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Bein útsending: Fjölmiðlar á tímum stafrænnar byltingar

Hver er staða íslenskra fjölmiðla á tímum stafrænnar byltingar? Ættu Google og Meta að greiða útgefendum fjölmiðla fyrir fréttir og er hægt að verðmeta fréttir? Hver verða áhrif gervigreindar á blaðamennsku og ritstjórnir fjölmiðla?

Þessar og fleiri spurningar verða til umræðu á málþingi menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem fram fer í dag kl. 13:00-15:40 í Grósku, Bjargarvegi 1 í Reykjavík. Málþingið ber yfirskriftina „Fjölmiðlar á tímum stafrænnar byltingar“ og er öllum opið.

Enn er hægt að skrá sig á viðburðinn en einnig verður sýnt frá honum í streymi hér á vef Stjórnarráðsins. Útsendingin hefst klukkan 13 og verður hægt að fylgjast með henni í spilaranum hér fyrir neðan. 

Dagskrá málþingsins


Á málþinginu gera Anya Schiffrin og Haaris Mateen grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sinnar á verðmati frétta, sem fjölmiðlar deila á samfélagsmiðlum, fyrir alþjóðlega tæknirisa.

Anya Schiffrin er forstöðumaður tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar School of International and Public Affairs, við Columbia-háskólann í New York og Haaris Mateen er hagfræðingur og kennari við Háskólann í Houston.

David Caswell fjallar um notkun gervigreindar í blaðamennsku og áhrif hennar á fjölmiðlun. David Caswell er ráðgjafi á sviði nýsköpunar og gervigreindar í fréttavinnslu og leiddi áður stafræna þróun á fréttadeildum BBC, Tribune Publishing og Yahoo!

Nic Newman fer yfir helstu stefnur og strauma í stafrænni fjölmiðlun 2024. Nic Newman er ráðgjafi um stafræna þróun hjá Reuters Institute við Oxford-háskóla og tengist málþinginu með rafrænum hætti.

Valgerður Anna Jóhannsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Jón Gunnar Ólafssson nýdoktor í fjölmiðlafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, fjalla um stöðu íslenskra fjölmiðla í breyttum heimi.

Einnig verða innlegg frá Ingunni Láru Kristjánsdóttur, TikTok fréttamanni RÚV, og Víkurfréttum á Suðurnesjum.

Í lok dagskrár fara fram pallborðsumræður um blaðamennsku og helstu tækifæri og áskoranir fjölmiðla á tímum tæknibreytinga. Þar ræðir Helga Arnardóttir við Karl Blöndal, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, Pál Ketilsson, ritstjóra Víkurfrétta á Suðurnesjum, Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags Íslands, Valgerði Önnu Jóhannsdóttur, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Heimildarinnar.

Fundarstjóri er Helga Arnardóttir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum